Sport

Gull-fyrirsætan svarar fyrir sig: Ef ykkur líkar ekki við mig þá er það ykkar missir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eileen Gu bítur hér í Ólympíugullverðlaun sín.
Eileen Gu bítur hér í Ólympíugullverðlaun sín. AP/Natacha Pisarenko

Eileen Gu er ein af stjörnum Vetrarólympíuleikanna í Peking en hún keppir fyrir Kína þrátt fyrir að vera fædd og uppalin í Bandaríkjunum.

Gu vann gull í skíðafimi af stórum palli eftir stórglæsilegt lokastökk. Hún gæti unnið fleiri gullverðlaun á mótinu en það á eftir að koma í ljós. Hún er aðeins átján ára gömul og varð sú yngsta til að vinna gull í skíðafiminni.

Einhverjir hafa gagnrýnt hana fyrir að svíkja lit með því að skipt yfir til Kína fyrir nokkrum árum síðan eða þegar Kínverjar söfnuðu liði fyrir Vetrarólympíuleikana á heimavelli.

Gu gefur ekki mikið fyrir þá gagnrýni og segist vera að gera sitt til auka tengsl og samskipti á milli þjóðanna. Móðir hennar er kínversk en faðir hennar er bandarískur.

„Ég er að nota mína rödd til að greiða fyrir eins mikil jákvæðum breytingum og ég get. Ef fólk líkar ekki við mig þá er það þeirra missir. Þau eiga aldrei eftir að vinna Ólympíugull,“ sagði Eileen Gu.

Gu er ekki bara sú besta í heimi í sinni grein heldur er hún einnig heimsklassa fyrirsæta. Hún sýndi brot frá ótrúlegu ári sínu á samfélagsmiðlum en þar má sjá hana fagna sigrum á stórmótum á milli þess að hún situr fyrir á forsíðum Elle og Vogue sem og á stórum auglýsingum hjá fyrirtækjum eins og Gucci, Tiffany & Co og Louis Vuitton.

Gu hefur líka veið fyrirsæta hjá Victoria’s Secret en hún hefur verið kölluð snjóprinsessan í skíðafiminni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×