Frá og með miðnætti í kvöld taka gildi breyttar reglur um sóttkví hér á landi en heilbrigðisráðherra tilkynnti í morgun að fólk sem verður útsett fyrir smitum utan heimilis þurfi ekki að sæta sóttkví heldur fara í smitgát. Börn og unglingar verða algjörlega undanþegin reglum um smitgát.
Í minnisblaði sem Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sendi á Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra í gær má finna ýmsar tillögur í ljósi stöðu faraldursins, sem virðist hafa verið stöðugur undanfarnar þrjár vikur.
„Á þessari stundu tel ég að afléttingar þurfi að hefja með því að einfalda enn frekar ýmsar leiðbeiningar um sóttkví og sýnatökur og í framhaldi af því létta á ýmsum takmarkandi samfélagslegum aðgerðum. Mikilvægt er hins vegar að aflétta í hægum en öruggum skrefum,“ segir í minnisblaði Þórólfs.
Með tillögunum er dregið mikið úr starfsemi smitrakningarteymisins og áherslan lögð á framkvæmd sóttvarnareglna innan heimila, vinnustaða og hópa.
Þrátt fyrir að breytingar hafi verið gerðar á sóttkví og smitgát leggur Þórólfur ekki til þess að lengd einangrunar verði stytt, líkt og mörg önnur nágrannalönd hafa verið að gera að undanförnu og margir hafa kallað eftir, þar á meðal Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.
Einangrun þeirra sem greinast smitaðir verður því áfram sjö dagar en starfsmenn Covid-göngudeildarinnar geta þó ákveðið lengri einangrun telji þeir nauðsyn til. Þá verða almennar leiðbeiningar um einangrun óbreyttar.
Fleiri muni greinast í skólum með breytingunum í dag
Ómíkron afbrigði veirunnar er uppistaðan í þeim mikla fjölda sem er að greinast núna en einnig eru um tíu prósent enn að greinast með delta afbrigðið.
Dregið hefur úr alvarlegum veikindum á spítalanum en þeim sem eru með vægari veikindi hefur fjölgað. Að sögn Þórólfs er það nú áskorun Landspítala að halda starfseminni gangandi með mikinn fjölda smitaðra.
Hann telur ljóst að með þeim breytingum sem tilkynntar voru í dag muni smituðum líklega fjölda í skólum og hjá börnum á leik og grunnskólaaldri. Heilbrigðisráðherra segist munu tilkynna afléttingaráætlun á föstudaginn.
„Tilslakanir í kjölfarið á ýmsum samfélagslegum aðgerðum munu á hinn bóginn að líkindum leiða til fjölgunar smita í eldri aldurshópum. Mikilvægt er hins vegar að sú fjölgun leiði ekki til fjölgunar á alvarlegum veikindum og spítalainnlögnum,“ segir í minnisblaði Þórólfs.