Sport

Karabatic fékk leyfi til að spila gegn Íslandi þrátt fyrir jákvætt covid próf

Atli Arason skrifar
Nikola Karabatic í baráttu gegn Ými Erni Gíslassyni og Elliða Snæ Viðarssyni í leiknum í gær
Nikola Karabatic í baráttu gegn Ými Erni Gíslassyni og Elliða Snæ Viðarssyni í leiknum í gær EPA-EFE/Zsolt Szigetvary

Nikola Karabatic, leikmaður Frakka, spilaði leikinn gegn Íslandi í gær en það var aðeins tveimur dögum eftir að hann greindist jákvæður í kórónaveiru prófi. Það er danska sjónvarpsstöðin TV 2 SPORT sem greinir frá þessu í dag.

Karabatic var með jákvætt sýni í sýnatökum sem teknar voru eftir sigur Frakka á Hollendingum á fimmtudagskvöldinu, tæpum 48 tímum fyrir leikinn mikilvæga gegn Íslandi. Þetta staðfesti EHF, Evrópska handknattleiks sambandið, í samtali við TV 2.

Þrátt fyrir jákvætt sýni fékk Karabatic leyfi frá EHF til þess að spila leikinn gegn Íslandi sem íslensku strákarnir unnu 29-21.

 

Á þessu er skýring samkvæmt þeim svörum sem TV 2 SPORT er með í höndunum frá EHF.

„Nikola Karabatic fékk Covid-19 sýkingu í desember og hann getur enn þá reynst jákvæður á Covid prófum. Á jákvæða prófi Frakkans frá fimmtudeginum voru CT-gildin hans svo há að aðstæðurnar voru metnar á þann hátt að ekki væri hætta á sýkingu,“ segir í svörum EHF til TV 2.

TV 2 tekur fram að ekki væri vitað hversu há CT-gildin voru, sem mæld voru í Karabatic.

CT-gildi segir til um hversu mikið magn af vírus viðkomandi einstaklingur er með í sér. Því hærra gildi, því minna magn af vírus er í einstaklingnum.

Samkvæmt sóttvarnarreglum EHF sem tóku gildi í ágúst 2021, nánar tiltekið í grein 4.3.2, þá má leikmaður sem áður hefur greinst með Covid-19 sýkingu, ekki spila keppnisleik nema CT-gildi leikmannsins séu yfir 30.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.