Sport

Real Madrid misstígur sig í toppbaráttunni á Spáni

Atli Arason skrifar
Karim Benzema klikkaði á vítaspyrnu í leiknum.
Karim Benzema klikkaði á vítaspyrnu í leiknum. EPA-EFE/Rodrigo Jimenez

Real Madrid gerði 2-2 jafntefli við Elche í spænsku La Liga í dag. Elche var fyrir leikinn í 15. sæti spænsku deildarinnar.

Madrídingar voru töluvert betri aðilinn allan leikinn en erfiðlega að gekk að koma boltanum í netið úr þeim 19 skotum sem Real gerði í leiknum. Á 33. mínútu fær Real Madrid vítaspyrnu sem Karim Benzema tekur en Benzema spyrnir boltanum hátt yfir markið.

Elche refsaði fyrir klúðrið níu mínútum síðar, á 42. mínútu, þegar Lucas Boye skoraði fyrsta mark leiksins. Þegar minna en korter var eftir af leiknum þá leggur Lucas Boye upp mark fyrir Pere Milla sem tvöfaldar forystu Elche á 76. mínútu og allt stefndi í óvæntan sigur gestanna. Madrídingar fengu líflínu á 82. mínútu þegar þeir fá annað víti og Luka Modric tekur það eftir að Benzema hafði áður verið skipt af velli. 

Modric skorar úr vítinu og minnkar muninn í 1-2. Þegar tvær mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma þá jafnar varnarmaðurinn Eder Militao leikinn í 2-2 og þar við sat.

Með stiginu fer Real Madrid upp í 50 stig og er eftir sem áður á toppi deildarinnar með fjögurra stiga forskot á Sevilla sem er í öðru sæti. Elche er áfram í 15. sæti.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×