Sex lykilmenn Íslands smituðust af kórónuveirunni í aðdraganda leiksins gegn heimsmeisturum Danmerkur í gær. Fleiri lið hafa lent illa í veirunni, ekki síst það þýska en á annan tug leikmanna þess eru smitaðir.
Þeir Ásgeir Örn og Róbert ræddu um leikinn gegn Dönum og stöðuna sem komin er upp hjá íslenska liðinu í EM-hlaðvarpi Seinni bylgjunnar sem Stefán Árni Pálsson stýrir.
„Þetta voru algjörir lykilmenn sem duttu út, allt menn með hlutverk, þannig að útlitið var mjög svart og setur mótið í uppnám hjá okkur. Við vitum ekkert hvort eða hvenær þeir koma til baka,“ sagði Róbert.
„Ég er sammála með aðbúnaðinn. Hann er til háborinnar skammar og gjörsamlega óþolandi. Skoðum aðeins tímalínuna. Strákarnir byrja á að fara í búbblu hérna heima, eru frá fjölskyldu og vinum á Íslandi og passa sig eins og þeir geta. Svo mæta þeir út og í einhvern sirkus. Eru með grímulausum túristum í lyftu og barinn opinn. Þetta er hræðilegt. Maður hefði viljað sjá þá á sér hóteli eða í sér álmu. Við höfum upplifað það áður að liðin séu saman á hóteli og engir aðrir gestir. Árið 2022 í miðju covid að það sé ekki betur staðið að þessu er eins og Guðmundur myndi segja: katastrófa.“
Ásgeir Örn tók í sama streng. „Þeir skýla sér á bak við það að fulltrúar frá öllum samböndunum hafi komið og tekið þetta út í desember eða eitthvað og það komu engar athugasemdir. En staðan er allt önnur í dag. Þjóðverjar eru með tólf smit, við sex. Þetta átti sér einhvern aðdraganda og hefur verið kraumandi og mallandi undir í einhvern tíma. Þá gerirðu bara einhverjar ráðstafanir, ferð með liðin af þessu hóteli og kemur þeim fyrir á minna hóteli þar sem sóttvarnir eru fullnægjandi.“
Ásgeir Örn segir óljóst hvað gerist í framhaldinu, hvort Evrópumótið verði hreinlega klárað.
„Það er bara mjög raunhæft að mótið verði flautað af því annar hver maður er smitaður og liðin lömuð. Þá verður mótið ómarktækt,“ sagði Ásgeir Örn.
Hlusta má á EM-hlaðvarp Seinni bylgjunnar í spilaranum hér fyrir ofan.