Handbolti

Þrír smitaðir í íslenska liðinu

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Björgvin Páll er kominn með covid og faðmar hér Viktor Gísla sem tekur við í markinu.
Björgvin Páll er kominn með covid og faðmar hér Viktor Gísla sem tekur við í markinu. vísir/epa

Það berast ekki góð tíðindi úr herbúðum strákanna okkar kvöldið fyrir fyrsta leik í milliriðli. Þrír leikmenn liðsins eru komnir með Covid.

Þetta eru þeir Björgvin Páll Gústavsson, Elvar Örn Jónsson og Ólafur Andrés Guðmundsson. Þeir fengu allir jákvætt úr PCR-prófi í kvöld og eru komnir í einangrun.

Þeir spila því eðli málsins samkvæmt ekki með liðinu annað kvöld og verður erfitt fyrir þá að ná fleiri leikjum á mótinu. Leikmennirnir eru allir með lítil einkenni.

Ekki verður kallað á aðra leikmenn í þeirra stað enda eru fjórir úr hópnum upp í stúku nú þegar. Það eru Ágúst Elí Björgvinsson markvörður sem kemur inn í stað Björgvins Páls. Svo eru líka utan hóps Kristján Örn Kristjánsson, Elvar Ásgeirsson og Daníel Þór Ingason.

Þessi niðurstaða er gríðarleg vonbrigði fyrir íslenska hópinn sem hefur lagt mikið á sig til að vernda búbbluna sína og verið í einangrun nánast frá áramótum.

Leikmenn á EM eru prófaðir tvisvar sinnum á dag. Eitt hraðpróf og eitt PCR-próf. Við skulum vona að veiran hafi ekki náð frekari útbreiðslu í hópnum. Ísland spilar við heimsmeistara Dana annað kvöld í fyrsta leik í milliriðli.

Yfirlýsing HSÍ:

Í morgun fóru strákarnir okkar í hefðbundið hraðpróf og PCR próf hjá mótshöldurum.

Við greiningu sýna komu í ljós 3 jákvæð sýni og eru viðkomandi leikmenn komnir í einangrun en með mjög lítil einkenni.

Leikmennir sem um ræðir eru Björgvin Páll Gústavsson, Elvar Örn Jónsson og Ólafur Andrés Guðmundsson.

Ekki verður kallað á nýja leikmenn í leikmannahópinn að sinni.

Nánari upplýsingar verða gefnar á morgun, fimmtudag.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.