Handbolti

Elvar: Alls konar tilfinningar í allan dag

Sindri Sverrisson skrifar
Elvar Ásgeirsson komst vel frá sínu í sínum fyrsta A-landsleik, gegn sjálfum heimsmeisturum Danmerkur.
Elvar Ásgeirsson komst vel frá sínu í sínum fyrsta A-landsleik, gegn sjálfum heimsmeisturum Danmerkur. Getty/Sanjin Strukic

Elvar Ásgeirsson fékk heldur betur eldskírn í dag þegar hann spilaði sinn fyrsta A-landsleik í handbolta, gegn sjálfum heimsmeisturum Danmerkur á EM, og komst vel frá sínu.

„Þetta var geggjað, þó að þetta hafi verið tapleikur. Það var geggjuð upplifun fyrir mig að fara í búninginn í fyrsta skiptið og spila leik með strákunum. Auðvitað er maður drullufúll að hafa ekki getað landað sigri eða náð í stig, þannig að þetta er góð tilfinning en líka hundfúlt,“ sagði Elvar við Vísi í Búdapest í kvöld.

Klippa: Elvar eftir fyrsta landsleikinn

Hann fann fyrir mun meira stressi fyrr í dag en þegar leikurinn hófst:

„Það eru búnar að vera alls konar tilfinningar í allan dag náttúrulega. En síðan þegar líður nær leik, maður er kominn inn í höllina og farinn að hita upp, þá finnur maður að maður er búinn að spila fullt af leikjum. Þó að það hafi ekki verið landsleikir þá finnur maður að maður hefur gert þetta áður. En í dag þá leið mér ekki vel, ef ég á að vera hreinskilinn,“ sagði Elvar, sem skoraði þrjú mörk og leið ansi vel eftir fyrsta markið:

„Það var gæsahúð á leiðinni til baka í vörnina, það er alveg klárt. Það var mjög gott.“

Fór hratt úr því hlutverki að eiga að hjálpa til á æfingum

Elvar kom óvænt inn í liðið eftir að sex leikmenn Íslands smituðust af kórónuveirunni á síðasta sólarhring.

„Þetta er auðvitað þungt högg fyrir liðið. Þetta eru allt lykilmenn sem hafa verið að detta út. Hlutverkið mitt fór fljótt úr því að vera að hjálpa til á æfingum og vera til taks þar, í að draga bara vagninn sem byrjunarliðsmaður. Þetta eru svakalegar sviptingar á svakalega stuttum tíma.

En við töluðum um það í undirbúningnum að þetta yrði ekki eitthvað sem við myndum láta trufla okkur. Við ætluðum bara að keyra á þetta og vinna leikinn. Því miður mistókst það,“ sagði Elvar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×