Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag en þar segir að verið sé að sækja um leyfi til að gera rannsókn á lyfinu sem öllum þeim sem eru með arfgengu heilablæðinguna verður boðið að taka þátt í .
Umrætt lyf er afleiða af afoxunarlyfinu NAC en að sögn Hákonar Hákonarsonar, forstjóra erfðarannsóknamiðstöðvar barnaháskólasjúkrahússins í Fíladelfíu í Bandaríkjunum og stofnanda lyfjaþróunarfyrirtækisins Arctic Therpeutics, hefur nýja lyfið sýnt áhrifameiri virkni og kemst auðveldar inn í taugafrumur í heilanum.
Hákon ræddi lyfið í viðtali við USA Today og segist hafa fengið fjölmargar fyrirspurnir frá einstaklingum sem vilja nálgast lyfið. Það hefur ekki síst vakið athygli á alþjóðavettvangi vegna spennandi möguleika á notkun þess gegn Alzheimer-sjúkdómnum.
„Okkar rannsóknir benda til þess að lyfið komi í veg fyrir að mýildi falli út í heila Alzheimer-sjúklinga en slíkar útfellingar orsaka bólgusvörun í heilanum sem leiðir til þess að taugafrumur deyja og heilinn rýrnar, sem veldur minnisstoli,“ hefur Morgunblaðið eftir Hákoni.
Hann segir Arctic Therapeutics nú vinna að þróun blóðprófs til að finna þá einstaklinga sem eru í mestri hættu að fá sjúkdóminn til að hægt sé að meðhöndla þá eins snemma á ævinni og mögulegt er.