Tvo daga tók að gera viðeigandi ráðstafanir svo hægt væri að senda einstaklingana í einangrun og sóttkví en ekki allir gátu snúið til síns heima. Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir á Vogi, segir að þessi uppákoma hafi eðlilega haft þó nokkur áhrif á skjólstæðinga Vogs.
„Þetta brýtur upp meðferðina og við vonum að þeir sem voru ekki komnir að lokum hérna komi bara aftur til okkar og það verður vonandi á fimmtudaginn, kannski miðvikudag. Þeir sem áttu pantað pláss hérna alla þessa daga sem við höfum ekki getað tekið inn koma bara aðeins seinna. Við verðum að standa upp úr þessu þó veiran slái okkur niður,“ sagði Valgerður í kvöldfréttum Stöðvar 2.
„Það er auðvitað alveg skelfilegt að lenda í þessu og þetta er verst fyrir fólkið sem er að bíða heima og aðstandendur þeirra“
Langflestir skjólstæðingar gátu farið heim til sín þar sem þeim er fylgt eftir. Nokkrir sem greindust sýktir fengu pláss í sóttvarnahúsi og aðrir á hóteli þar sem þeir hafa verið í sóttkví.
Enginn greinst í Vík
Valgerður segir að stjórnendur hafi haft áhyggjur af því að smit myndi berast inn á meðferðarstöð SÁÁ í Vík með fólki sem fór þangað á þriðjudag að lokinni meðferð á Vogi.
Allir þeir fjörutíu sjúklingar sem dvelja á Vík voru því sendir í PCR-sýnatöku auk starfsfólks en þær niðurstöður fengust í dag að öll sýni hafi verið neikvæð.
„Ég er mjög ánægð með það,“ segir Valgerður sem er bjartsýn á að geta opnað Vog á ný um miðja viku.
„Ef við starfsmennirnir komum vel út úr PCR-prófinu eftir sóttkvína á þriðjudaginn þá ættum við að geta hafist handa og haldið áfram, og vonandi allir sjúklingarnir okkar með.“