Fótbolti

Forseti FIFA vill líka EM á tveggja ára fresti

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gianni Infantino, forseti FIFA, vill stórmót á hverju ári.
Gianni Infantino, forseti FIFA, vill stórmót á hverju ári. getty/Victor Boyko

Gianni Infantino, forseti FIFA, er opinn fyrir því að halda Evrópumót karla í fótbolta á tveggja ára fresti.

FIFA berst fyrir því að fjölga heimsmeistaramótum og halda þau á tveggja ára fresti í stað fjögurra eins og alltaf hefur verið gert.

Aðspurður í samtali við ítölsku útvarpsstöðina Radio Anch'io hvaða áhrif þessar fyrirætlanir, að fjölga heimsmeistaramótum, hefðu á Evrópumótið sagði Infantino: „EM yrði þá líka á tveggja ára fresti.“

Þessar hugmyndir FIFA hafa mætt mikilli andstöðu, meðal annars frá UEFA og COMNEBOL, knattspyrnusambandi Suður-Ameríku. Þá hafa leikmenn á borð við Robert Lewandowski og Kylian Mbappé sagst vera ósáttir við þessar hugmyndir. Infantino segir að fjölgun heimsmeistaramóta muni hjálpa til við útbreiðslu fótboltans.

„Í Evrópu er andstaða því það er heimsmeistaramót í hverri viku með bestu leikmönnum heims en það er ekki svo annars staðar í heiminum. Þetta er mánuður á hverju ári og við þurfum að finna leið til að fótbolti sé í raun og veru allra,“ sagði Infantino sem kveðst fullviss um að tillagan um fjölgun heimsmeistaramóta verði samþykkt.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.