Erlent

Vilja út­göngu­bann á Tenerife á gaml­árs­kvöld

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Fjölmargir Íslendingar hafa lagt leið sína til Tenerife yfir hátíðarnar.
Fjölmargir Íslendingar hafa lagt leið sína til Tenerife yfir hátíðarnar. Getty Images

Lagt hefur verið til að útgöngubann taki gildi á Tenerife á Spáni eftir miðnætti á gamlárskvöld vegna hraðrar útbreiðslu kórónuveirunnar. Nái tillagan fram að ganga er gert ráð fyrir að bannið taki gildi eftir miðnætti á gamlárskvöld og þann 5. janúar.

Blas Trujillo, heilbrigðisráðherra heimastjórnar Kanaríeyja, greindi frá því að óskað hefði verið eftir útgöngubanni á blaðamannafundi í morgun. Hæstiréttur Kanaríeyja þarf að fallast á tillöguna, segir í Canarian Weekly.

Trujillo segir að tímamark útgöngubannsins yrði mismunandi eftir eyjum Kanaríeyja enda ástandið misalvarlegt á eyjunum. Eyjarnar La Palma og La Gomera eru samkvæmt tillögunni á sóttvarnarstigi tvö og tæki útgöngubann þar gildi frá klukkan tvö eftir miðnætti til klukkan sex um morgun.

Eyjan Tenerife, ásamt Gran Canaria, eru á sóttvarnarstigi þrjú og tæki útgöngubann þar gildi frá klukkan eitt eftir miðnætti til klukkan sex um morgun. Fólki yrði þó heimilt að sækja vinnu og leita sér læknisaðstoðar á meðan útgöngubannið væri í gildi. 

Stjórnvöld á Kanaríeyjum hafa miklar áhyggjur af útbreiðslu faraldursins en þar hefur nýting legurýma hækkað um 260 prósent síðan í nóvember.

Eins og Vísir greindi frá fyrr í dag er nýgengi smitaðra á Tenerife rúmlega 1.908. Sem dæmi er nýgengi smitaðra á Íslandi rúmlega 1.359 sem er með því mesta í Evrópu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.