Fótbolti

Mögulega dregið aftur eftir klúður varðandi Man. Utd

Sindri Sverrisson skrifar
Cristiano Ronaldo og félagar virtust sviptir tækifæri til að mæta Atlético Madrid.
Cristiano Ronaldo og félagar virtust sviptir tækifæri til að mæta Atlético Madrid. Getty/Joe Giddens

Mistök virtust eiga sér stað í beinni útsendingu frá því þegar dregið var í 16-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu í fótbolta í dag. UEFA hefur ekki tjáð sig um málið en mögulegt er að dregið verði að nýju.

Nafn Manchester United var dregið úr skálinni þegar andstæðingur spænska liðsins Villarreal var dreginn. Úr því að liðin höfðu verið saman í riðli þurfti að draga að nýju og dróst Manchester City þá gegn Villarreal.

Þetta gæti hafa valdið ruglingi í kjölfarið, því þegar Atlético Madrid hafði verið dregið inn í næsta einvígi virtist gleymast að hafa kúlu með nafni Manchester United með í skálinni. 

Þar með hafði United ekki möguleika á að dragast gegn Atlético. Atlético þarf að gera sér að góðu að mæta Bayern München.

Félögin sem málið snertir og fréttaveitur hafa sent fyrirspurn til UEFA og beðið um skýringar á því sem á gekk en ekki fengið svör þegar þetta er skrifað.

United dróst svo gegn PSG og hefði líklega ekki getað fengið erfiðari andstæðing úr neðri styrkleikaflokknum. Það þýðir að Cristiano Ronaldo og Lionel Messi mætast að nýju.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.