Innlent

Hundruð milljóna kostnaður vegna breytinga í Stjórnar­ráðinu

Smári Jökull Jónsson skrifar
Við breytingar í Stjórnarráðinu fjölgar ráðuneytum úr tíu í tólf og ráðherrum fjölgar um einn.
Við breytingar í Stjórnarráðinu fjölgar ráðuneytum úr tíu í tólf og ráðherrum fjölgar um einn. Vísir / Vilhelm

Kostnaður ríkisins vegna breytinga í Stjórnarráðinu hleypur á hundruðum milljóna króna. Samkvæmt þingsályktunartillögu forsætisráðherra mun ráðuneytum fjölga úr tíu í tólf.

Fyrir Alþingi liggur þingsályktunartillaga forsætisráðherra um breytingar á fjölda og heitum ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands en breytingarnar voru kynntar þegar nýja ríkisstjórnin var opinberuð þann 28.nóvember síðastliðinn.

Áætlað er að launakostnaður, rekstrarkostnaður og kostnaður vegna húsnæðis séu um 190 milljónir á ári vegna stofnunar nýs ráðuneytis. Í tillögunni er þó tekið fram að þó ráðuneytum sé núna fjölgað um tvö sé kostnaður skipulagsbreytinganna minna en tvöfaldur sá kostnaður þar sem ráðherrum fjölgi aðeins um einn.

Tillagan felur í sér umtalsverðar breytingar sem tíundaðar eru í tillögunni. Þar er skrifað að eftir efnahagshrunið hafi komið fram að skort hafi á samhæfingu og samvinnu stjórnvalda sem fóru með skyld verkefni. Á grundvelli fyrirhugaðra breytinga megi ætla að Stjórnarráðið búi nú yfir aukinni stefnulipurð og auknum sveigjanleika sem nauðsynlegur er til þess að innleiða breytingar hratt og vel með sem minnstri röskun á starfsemi stjórnsýslunnar.

Endanlegur kostnaður liggur ekki fyrir

Bjarni Benediktsson treysti sér ekki til að setja nákvæma tölu á kostnaðinn.Vísir/Vilhelm

Á föstudaginn tókust þeir Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson á í umræðum á Alþingi en þar spurði Sigmundur að því hver kostnaðurinn væri við breytingarnar sem áformaðar eru.

Bjarni sagðist ekki treysta sér til að setja nákvæma tölu á það en sagði ljóst að kostnaðurinn gæti hlaupið á hundruðum milljóna króna.

Gert er ráð fyrir að breytingar í Stjórnarráðinu taki gildi 1.febrúar á næsta ári og að endanlegt mat á kostnaði vegna skipulagsbreytinganna komi fram í umræðum um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2022.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×