Sport

Fyrsta mál Ásmundar í nýrri ríkis­stjórn varði mál­efni þjóðar­leik­vanga

Hjörtur Leó Guðjónsson og Eiður Þór Árnason skrifa
Henry Birgir Gunnarsson, Hannes S. Jónsson, Vanda Sigurgeirsdóttir og Ásmundur Einar Daðason í Pallborðinu í dag.
Henry Birgir Gunnarsson, Hannes S. Jónsson, Vanda Sigurgeirsdóttir og Ásmundur Einar Daðason í Pallborðinu í dag. Vísir/Vilhelm

Ásmundur Einar Daðason, ráðherra íþróttamála, telur mikilvægt að ráðist verið í úrbætur á stöðu þjóðarleikvanga Íslands. Um sé að ræða eitt af þeim málum sem séu efst á forgangslista hans í nýrri ríkisstjórn.

Stjórnvöld hafa legið undir ámæli fyrir að bregðast ekki við ákalli íþróttahreyfingarinnar um að bæta aðstöðu hópíþrótta en hátt í sextíu ár eru nú liðin frá því að Laugardalshöllin var vígð. Þá hafa forsvarsmenn knattspyrnuhreyfingarinnar lengi kallað eftir byggingu nýs Laugardalsvallar en íþróttamannvirkin uppfylla ekki lengur allar kröfur alþjóðasambanda fyrir leiki á efsta stigi.

Er því raunveruleg hætta á því að heimaleikir landsliða í hinum ýmsu greinum verði að óbreyttu spilaðir á erlendri grundu. Málefni þjóðarleikvanga voru til umræðu í Pallborðinu á Vísi í dag. Ásmundur Einar svaraði þar fyrir stefnu stjórnvalda varðandi uppbyggingu nýrra þjóðarleikvanga fyrir fótbolta, inniíþróttir og frjálsíþróttir.

Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður Knattspyrnusambands Íslands, og Hannes S. Jónsson, formaður Körfuknattleikssambands Íslands, tóku einnig þátt í umræðunum.

Fundaði fyrst með íþróttahreyfingunni

Ásmundur Einar sagði ekki síður mikilvægt að hafa í huga að umrædd mannvirki nýtist fleirum en bara afrekslandsliðum Íslands.

„Þetta er eitt af þeim verkefnum sem verður efst á mínum forgangslista á þessu kjörtímabili. Ég geri ráð fyrir því að mitt fyrsta mál sem fari inn í ríkisstjórn varði þetta mál. 

Fyrsti fundurinn sem ég tók sem ráðherra var við Íþrótta- og ólympíusamband Íslands og með sérsamböndunum í gær, og fyrsta heimsóknin líka. Það er líka til þess að undirstrika mikilvægi þessa málaflokks, af því að ég bara þekki það og hef séð það.“

Ásmundur bætti við að það væri mikilvægt fyrir stjórnmálamenn að sjá að aukin samstaða ríki um málið innan íþróttahreyfingarinnar. Hann fagni því þar sem það skipti máli að sameiginleg rödd komi úr þeirri átt. 

Horfa má á umræðuþáttinn í heild sinni í spilaranum fyrir neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×