Sport

Helgi skráði sig í sögubækurnar: „Held að mig sé að dreyma“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Helgi Laxdal Aðalgeirsson var valinn í úrvalslið Evrópumótsins.
Helgi Laxdal Aðalgeirsson var valinn í úrvalslið Evrópumótsins. stefán pálsson

Helgi Laxdal Aðalgeirsson geislaði af gleði eftir að íslenska karlaliðið vann til silfurverðlauna á EM í hópfimleikum í kvöld.

„Ég er svakalega kátur með þetta. Ég trúi eiginlega ekki að ég sé hér. Það þarf eiginlega að slá mig. Ég held að mig sé að dreyma,“ sagði Helgi í samtali við Vísi eftir að keppni lauk.

„Markmiðin fyrir úrslitin voru að negla öll stökkin okkar. Við gerðum það ekkert rosalega mikið á trampólíni en við rústuðum þessu á dýnu. Það gekk ógeðslega vel. Átján lendingar og fengum fullt af stigum.“

Helgi framkvæmdi ofurstökkið eins og hann var búinn að lofa. Hann hætti við í undankeppninni en lét vaða í úrslitunum.

„Það kom núna og ég gerði þetta ekkert smá vel. Fyrsta stökkið var ekki jafn gott og ég hélt þannig að ég var mjög stressaður fyrir hitt en ég negldi það og strákarnir komu allir til mín eftir það,“ sagði Helgi ánægður með að vera kominn í sögubækurnar en enginn karl hefur framkvæmt þetta stökk á EM.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.