Sport

„Loksins tókst þetta!“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hekla Mist Valgeirsdóttir (til vinstri) var himinlifandi með Evrópumeistaratitilinn.
Hekla Mist Valgeirsdóttir (til vinstri) var himinlifandi með Evrópumeistaratitilinn. stefán pálsson

Hekla Mist Valgeirsdóttir var að vonum í skýjunum eftir að Ísland varð Evrópumeistari í hópfimleikum.

Gleði íslenska liðsins var ósvikin enda hafði það verið í 2. sæti á þremur Evrópumótum í röð, alltaf á eftir Svíum. En það mátti ekki tæpara standa. Liðin fengu sömu heildareinkunn, 57.250, en Ísland vann fleiri áhöld og þar með Evrópumeistaratitilinn.

„Þetta er rosalega góð tilfinning. Loksins tókst þetta! Við höfum unnið svo mikið fyrir þessu og loksins tókst okkur að taka gullið,“ sagði Hekla við Vísi.

Íslendingar fengu síðustu einkunnina og spennan var því óbærileg þegar fáni Íslands færðist ofar og ofar á stóra skjánum í salnum sem sýnir einkunnirnar. En sem betur fer fór Ísland upp fyrir Svíþjóð á endanum.

„Þetta var rosalega stressandi. Við sáum að við vorum búnar að vinna trampólínið og dansinn og einkunnin fyrir átti bara eftir að koma. Við gerðum nokkur mistök á dýnu þannig að maður var pínu óviss hvort þetta myndi takast en svo hafðist þetta á endanum,“ sagði Hekla.

„Þetta er rosalega góð tilfinning. Það var hlegið og grátið og allur pakkinn.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.