Sport

Stúlknaliðið fékk silfur eftir mikla baráttu við Svía

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Íslensku stelpurnar fagna af innlifun.
Íslensku stelpurnar fagna af innlifun. stefán þór friðriksson

Íslenska stúlknaliðið vann til silfurverðlauna á Evrópumótinu í hópfimleikum í Guimaeres í Portúgal í dag.

Íslensku stelpurnar voru eins nálægt því að vinna gull og hægt verður en þær voru aðeins 0.100 á eftir sigurvegurum Svía. Minni verður munurinn ekki.

Ísland fékk 54.200 í heildareinkunn en Svíþjóð 54.300. Bretland fékk bronsið með 51.725 í heildareinkunn.

Íslenska stúlknaliðið hleypur inn á keppnisgólfið, leiddar áfram af lukkudýri mótsins.stefán pálsson

Mikill og góður andi var í íslenska liðinu sem fagnaði vel og innilega eftir vel heppnaðar æfingar á dýnu og trampólíni.

Íslensku stelpurnar byrjuðu á dýnu og fyrir stökkin sín þar fengu þær 16.850 í einkunn. Það var mikil bæting frá undanúrslitunum þar sem æfingar á dýnu skiluðu íslenska liðinu 14.400 í einkunn. 

Næst var komið að trampólinu og fyrir æfingarnar þar fékk Ísland 16.450 í einkunn og hækkaði sig einnig verulega frá undanúrslitunum (14.800). Eftir fyrstu tvær umferðirnar voru Íslendingar í 3. sæti.

Íslendingar luku leik á dansgólfinu þar sem þeir glönsuðu. Frábærlega útfærðar æfingar skiluðu 20.900 í einkunn. Það var hæsta einkunn sem nokkurt lið fékk fyrir æfingar sínar í dag. 

Hún skilaði íslenska liðinu upp í 2. sætið og svo grátlega nálægt gullinu. En íslensku stelpurnar fara heim með silfurmedalíu um hálsinn.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.