Sport

„Varð miklu meira kúl að vera í fimleikum“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Íslenska karlaliðið í hópfimleikum hefur keppni á EM annað kvöld.
Íslenska karlaliðið í hópfimleikum hefur keppni á EM annað kvöld. stefán þór friðriksson

Í fyrsta sinn í áratug sendir Ísland karlalið í fullorðinsflokki til leiks á Evrópumótinu í hópfimleikum. Helgi Laxdal Aðalgeirsson, einn af aðalmönnunum í íslenska liðinu, segir það til marks um vöxtinn í karlafimleikum á Íslandi.

„Það hefur verið svolítið langt hlé. Við erum með ungt lið sem hefur verið lengi saman. Ég held núna verðum við með karlalið til frambúðar,“ sagði Helgi í samtali við Vísi í gær. 

Hann og félagar hans hafa ferðast um landið síðustu sumur og sýnt listir sínar til að kynna fimleikaíþróttina og auka áhuga á henni.

„Það hefur borið rosa mikinn árangur, sérstaklega á landsbyggðinni. Ég fann að það varð miklu meira kúl að vera í fimleikum. Við bjuggum til einhverja bíómynd, ég þjálfa mjög mikið af strákum í Stjörnunni og þeim fannst mjög merkilegt að ég væri í bíómynd,“ sagði Helgi.

„Það er miklu meiri áhugi eftir þessa sýningar. Við sýndum að fimleikar eru ekki bara splitt og spíkat. Þetta er miklu skemmtilegra.“

Keppni í undanúrslitum hjá karlaliðum hefst klukkan 19:00 annað kvöld. Lið frá sex þjóðum taka þátt í karlaflokki: Íslandi, Svíþjóð, Aserbaídsjan, Slóveníu, Bretlandi og Portúgal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×