Enski boltinn

Pukki kom í veg fyrir fyrsta sigur tíu leikmanna Newcastle

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Teemu Pukki skoraði fallegt mark fyrir Norwich í kvöld.
Teemu Pukki skoraði fallegt mark fyrir Norwich í kvöld. Ian MacNicol/Getty Images

Tíu leikmenn Newcastle voru hársbreidd frá því að sæka fyrsta sigur liðsins á tímabilinu er liðið tók á móti Norwich í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Teemu Pukki sá þó til þess að niðurstaðan varð 1-1 jafntefli með fallegu marki undir lok leiks.

Það er ekki hægt að segja að heimamenn í Newcastle hafi átt fraumabyrjun í kvöld, en strax á níundu mínútu leiksins fékk Ciaran Clark að líta beint rautt spjald fyrir að rífa aftan í Teemu Pukki sem var við það að sleppa einn í gegn.

Newcastle-liðið þurfti þvú að spila seinustu 80 mínútur leiksins manni færri, en gestunum tókst ekki að nýta sér liðsmuninn í fyrri hálfleik og staðan var enn markalaus þegar gengið var til búningsherbergja.

Þrátt fyrir að vera manni færri voru heimamenn í Newcastle hættulegri í sínum aðgerðum í upphafi seinni hálfleiks. Það skilaði sér loksins eftir um klukktíma leik þegar Federico Fernandez sakallaði hornspyrnu Jonjo Shelvey í átt að marki, en boltinn fór í höndina á Billy Gilmour og vítaspyrna dæmd.

Callum Wilson fór á punktinn og skoraði framhjá Tim Krul í markinu. Það verður seint sagt að hann hafi skorað af öryggi því Krul varði boltann upp í þverslánna og þaðan inn.

Eftir markið efldust gestirnir í Norwich og Finnski framherjinn Teemu Pukki jafnaði loksins metin þegar um tíu mínútur voru til leiksloka með fallegu skoti upp í samskeytin.

Niðurstaðan varð því 1-1 jafntefli og Newcastle þarf enn að bíða eftir fyrsta sigri tímabilsins. Liðið situr á botni deildarinnar með sjö stig eftir 14 leiki, þremur stigum á eftir Norewich sem situr í 18. sæti ensku úrvalsdeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×