Sport

Kviknaði í buxum Fridu eftir sigur í heimsbikarnum um helgina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Frida Karlsson vann glæsilegan sigur en lenti síðan í mjög óvenjulegu atviki strax á eftir.
Frida Karlsson vann glæsilegan sigur en lenti síðan í mjög óvenjulegu atviki strax á eftir. EPA-EFE/KIMMO BRANDT

Sænska skíðagöngukonan Frida Karlsson var í miklum ham um helgina þegar heimsbikarinn fór af stað en það er spennandi tímabil framundan með Ólympíuleikum í febrúar.

Það er óhætt að segja að Karlsson hafi verið sjóðandi heit í sigri sínum í 10 kílómetra göngu með hefðbundni aðferð.

Karlsson tók forystuna í upphafi göngunnar og hélt henni allt til loka. Mesta fjörið var eiginlega í viðtalinu eftir keppnina.

Þrátt fyrir mikinn kulda í Ruka í Finnland þar sem keppnir helgarinnar fóru fram þá var hitinn af Fridu Karlsson of mikill fyrir fatnaðinn hennar.

„Það kviknaði í mér í forystustólnum,“ sagði Frida Karlsson í viðtali eftir keppnina.

„Buxurnar mínar byrjuðu bara að brenna. Ég veit ekki hvað var í gangi, ég var kannsli bara of heit,“ sagði Frida hlæjandi. Það var mjög kalt þennan dag og hitatækið við stólinn virðist hafa brunnið yfir með þeim afleiðingum að það kviknaði í buxunum.

„Þær byrjuðu bara að brenna og allt í einu var ekkert eftir af buxunum. Ég þurfti að kalla eftir hjálpa og það var ein sem gat lánað mér buxur,“ sagði Frida.

Frida Karlsson er 22 ára gömul og var á sínum tíma nokkrum sinnum heimsmeistari unglinga. Hún hefur unnið þrenn silfurverðlaun á HM fullorðinna en vann gull með boðssveit Svía á HM 2019.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×