Fótbolti

Kristófer og félagar gerðu jafntefli gegn tíu leikmönnum Viborg | Aron Elís og félagar unnu

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Kristófer Ingi Kristinsson var í byrjunarliði Viborg sem gerði jafntefli gegn SønderjyskE.
Kristófer Ingi Kristinsson var í byrjunarliði Viborg sem gerði jafntefli gegn SønderjyskE. Lars Ronbog / FrontZoneSport via Getty Images

Nú rétt í þessu lauk tveimur leikjum í dönsku úrvalsdeildinni í fótbolta og það voru Íslendingar í eldlínunni í þeim báðum. Kristófer Ingi Kristinsson og félagar hans í SønderjyskE gerðu 1-1 jafntefli gegn tíu leikmönnum Viborg og Aron Elís Þrándarson og félagar hans í OB unnu 2-0 sigur gegn Nordsjælland.

Tobias Bech kom heimamönnum í Viborg yfir gegn SønderjyskE strax á tíundu mínútu áður en Lars Kramer lét reka sig af velli með rautt spjald á 28. mínútu. Heimamenn þurftu því að spila seinasta klukkutíman manni færri.

Marc Dal Hende jafnaði metin fyrir SønderjyskE stuttu fyrir hálfleik, en ekki tókst liðinu að nýta sér liðsmuninn frekar og niðurstaðan varð því 1-1 jafntefli.

SønderjyskE situr í næst neðsta sæti deildarinnar með tíu stig eftir 17 leiki, tíu stigum á eftir Viborg sem vermir áttunda sætið.

Þá spilaði Aron Elís Þrándarson allan leikinn er OB vann 2-0 sigur gegn Nordsjælland, en það voru þeir Issam Jebali og Max Fenger sem sáu um markaskorun OB.

OB situr í níunda sæti deildarinnar með 19 stig eftir 17 leiki, þrem stigum meira en Nordsjælland sem situr sæti neðar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.