Sport

Snjóbrettastjarna tók skelfilega ákvörðun og lést eftir fall í brekkunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marko Grilc var frábær snjóbrettamaður og náði oft í fremstu röð.
Marko Grilc var frábær snjóbrettamaður og náði oft í fremstu röð. Getty/Adam Davy

Marko Grilc var einn af farsælustu snjóbrettaköppum Slóveníu en hann lést í gær eftir slys í Sölden sem er skíðastaður í Austurríki.

Grilc var aðeins 38 ára gamall en hann datt í brekkunni og lenti með höfuðið á stein sem var falinn undir snjó.

Grilc var þarna að vinna með sjónvarpstökuliði en hópurinn var skoða möguleg svæði fyrir upptöku.

Hann hafði tekið þá skelfilega ákvörðun að fara af stað á snjóbrettinu án þess að nota hjálminn sinn og það varð honum að bana þegar hann missti jafnvægið og féll á steininn.

Þeir sem voru með honum reyndu að aðstoða hann eftir fallið en hann var úrskurðaður látinn þegar sjúkrafólk mætti á svæðið.

Grilc hafði náð flottum árangri á ferlinum meðal annars komist fjórum sinnum á verðlaunapall á heimsmeistaramótinu. Hann varð heimsmeistari í London 2010 í stökkum.

Undanfarin ár hafði Grilc verið mikið í því að búa til myndbönd og hjálpa með því að kynna íþróttina fyrir unga fólkinu en um leið var hann með marga auglýsingasamninga.

Hann meiddist illa á baki á snjóbretti árið 2016 en náði sér.

Grilc lætur eftir sig eiginkonuna Ninu sem er ófrísk af þriðja barni þeirra en þau eiga líka tvö önnur lítil börn.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.