Fótbolti

Marka­drottningin skoraði í fyrsta sinn í 707 daga og það sást á fögnuði hennar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ada Hegerberg er mikil markadrottning en var búin að bíða mjög lengi eftir að skora mark fyrir Olympique Lyon.
Ada Hegerberg er mikil markadrottning en var búin að bíða mjög lengi eftir að skora mark fyrir Olympique Lyon. Getty/Matthew Lewis

Norska knattspyrnukonan Ada Hegerberg er mætt á ný inn á völlinn eftir langa fjarveru frá vegna erfiða meiðsla og nú er hún líka farin að raða inn mörkum.

Hegerberg er fyrrum besta knattspyrnukona heims og einn mesti markaskorari sem kvennafótboltinn hefur séð. Krossbandsslit í janúar 2020 breyttu miklu og hún spilaði ekki fótbolta í tuttugu mánuði.

Nú er þessi frábæra knattspyrnukona og liðsfélagi Söru Bjarkar Gunnarsdóttur hjá Lyon, farin að stríða varnarmönnum á ný. Hegerberg braut ísinn í stórsigri Olympique Lyon í toppslagnum á móti Paris Saint Germain í frönsku deildinni.

Lyon vann leikinn 6-1 en sú norska skoraði tvö síðustu mörk liðsins í leiknum. Þetta voru fyrstu mörk Hegerberg í 707 daga eða síðan 8. desember 2019.

Hegerberg hafði ekki náð að skora í fyrstu fimm leikjum sínum eftir endurkomuna en mörkin litu loksins dagsins ljós um helgina.

Hér fyrir neðan má sjá fyrsta mark Ödu í 21 mánuð og allar þær tilfinningar sem brutust fram hjá henni.

Ada Hegerberg er 26 ára gömul síðan í júlí en hún hefur spilað með Olympique Lyon frá árinu 2014 og unnið sextán stóra titla með franska liðinu. Eftir mörkin tvö í þessum leik hefur Hegerberg skoraði 222 mörk í 188 leikjum með Lyon í öllum keppnum.

Hún var fyrsta konan til að vinna Gullhnöttinn, sem besta knattspyrnukona heims, árið 2018.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.