Sport

Andri Snær: KA/Þór spilar best þegar á móti blæs

Andri Már Eggertsson skrifar
Andri Snær Stefánsson, þjálfari KA/Þórs, var ánægður með sigurinn
Andri Snær Stefánsson, þjálfari KA/Þórs, var ánægður með sigurinn Vísir/Hulda Margrét

KA/Þór hafði betur gegn Val í toppslag umferðarinnar. Góður endasprettur KA/Þórs sá til þess að leikurinn vannst 26-28. Andri Snær Stefánsson, þjálfari KA/Þórs, var ánægður í leiks lok. 

„Þetta var frábær sigur gegn frábæru liði Vals. Þetta var góður handboltaleikur og því mjög gaman að taka stigin tvö,“ sagði Andri Snær hæstánægður eftir leik.

Leikurinn var jafn og spennandi en KA/Þór var sterkari aðilinn undir lok leiks og hafði betur að lokum. 

„Við stigum upp sóknarlega á réttum augnablikum. Við áttum í vandræðum með Valsliðið framan af seinni hálfleik. Við settum auka leikmann í sókn ásamt öðrum breytum hjá okkur. Þetta var fyrst og fremst karakter liðsins sem vann leikinn.“ 

KA/Þór skoraði þrjú síðustu mörk fyrri hálfleiks og var marki yfir í hálfleik 14-15. 

„Þrátt fyrir góðan kafla undir lok fyrri hálfleiks vorum við undir á löngum köflum í seinni hálfleik. “

„KA/Þór stelpurnar mínar elska að vera í jöfnum leikjum og spila best þegar á móti blæs.“

Síðustu fimm mínútur leiksins voru ótrúlegar þar sem KA/Þór fékk ekki á sig mark og endaði á að vinna leikinn með tveimur mörkum 26-28.

„Maður er eins og tóm blaðra eftir leik. Ég á erfitt með að að útskýra þennan lokakafla. Þetta var stál í stál og féll þetta okkar megin að þessu sinni,“ sagði Andri Snær að lokum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×