Innlent

„Ekki nægjanlega góður árangur, bara alls ekki“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Guðmundur Guðbrandsson er umhverfisráðherra.
Guðmundur Guðbrandsson er umhverfisráðherra. Vísir/Vilhelm

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra, segir að þau loforð sem gefin hafi verið á loftslagsráðstefnu í Sameinuðu þjóðanna séu ekki nægjanleg til að halda hlýnun jarðar undir tveimur gráðum á næstu áratugum.

Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna er nú á lokametrunum í Glasgow og þar hafa fulltrúar ríkja heimsins mætt til að ræða aðgerðir í loftslagsmálum, og hvað þurfi að gera til að stemma í stigu við hlýnun jarðar.

Guðmundur Ingi ræddi það sem komið hefur fram á ráðstefnunni í beinni útsendingu frá Glasgow í kvöldfréttum Stöðvar 2. Þar sagði hann loforðin sem hingað til hafi borist ekki tryggja nægilegan góðan árangur.

„Fyrir ráðstefnuna bentu loforð ríkja heimsins til að hlýnun jarðar yrði um 2,7 gráður og eftir þau loforð sem hér hafa komið fram virðist þetta stefna í kannski 2,4 gráðu hlýnun sem er ekki nægjanlega góður árangur, bara alls ekki. Við viljum fara undir tvær gráðurnar og Ísland hefur nú lagt áherslu á það ásamt öðrum ríkjum að við séum í 1,5,“ sagði Guðmundur.

Bindur hann þó vonir við að árangur náist.

„Við vonumst enn þá til að þetta geti batnað en allavega að það verði skýr skilaboð frá ráðstefnunni um það að við höldum áfram að lækka þetta.“

Tæplega tvö hundruð ríki sem eiga aðild að loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna eru hvött til þess að leggja fram metnaðarfyllri markmið um samdrátt í losun fyrir lok næsta árs í drögum að samkomulagi COP26-ráðstefnunnar sem bresku gestgjafarnir birtu í morgun.

Aðspurður um hvort að yfirvöld hér á landi myndu taka þátt í þessu sagði Guðmundur að það yrði að koma í ljós eftir að ný ríkisstjórn er mynduð.

„Núna eru viðræður í gangi um nýja ríkisstjórn og við verðum að sjá hvað ný ríkisstjórn ber í skauti sér, það verður að ráðast af því.“


Tengdar fréttir

Samgöngur í brennidepli á COP26: „Það er ekki eftir neinu að bíða“

Samgöngur verða í brennidepli á COP26 ráðstefnunni í Glasgow í dag en Ísland er í öðru sæti þegar að kemur að orkuskiptum í samgöngum. Framkvæmdastýra Orku náttúrunnar segir Ísland geta miðlað þekkingu sinni á ýmsum sviðum en getur lært af öðrum löndum á öðrum sviðum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×