Innlent

Samgöngur í brennidepli á COP26: „Það er ekki eftir neinu að bíða“

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Berglind Rán Ólafsdóttir, framkvæmdastýra Orku náttúrunnar, segir Ísland geta lært ýmislegt frá öðrum löndum.
Berglind Rán Ólafsdóttir, framkvæmdastýra Orku náttúrunnar, segir Ísland geta lært ýmislegt frá öðrum löndum.

Samgöngur verða í brennidepli á COP26 ráðstefnunni í Glasgow í dag en Ísland er í öðru sæti þegar að kemur að orkuskiptum í samgöngum. Framkvæmdastýra Orku náttúrunnar segir Ísland geta miðlað þekkingu sinni á ýmsum sviðum en getur lært af öðrum löndum á öðrum sviðum.

Á hverjum degi er ákveðið þema á ráðstefnunni en í dag er þemað samgöngur og meðal þess sem er til umræðu er rafbílavæðing landa. Berglind Rán Ólafsdóttir, framkvæmdastýra Orku náttúrunnar, segir Ísland standa þar framarlega í flokki.

„Við á Íslandi erum nokkuð framarlega þegar kemur að orkuskiptum í samgöngum og við erum númer tvö í rafbílavæðingu á eftir Noregi,“ segir Berglind.

Á Íslandi eru um 20 þúsund raftengjanlegir bílar, eða um 10 prósent, sem er mjög mikið samaborið við aðrar þjóðir en Berglind bendir á að á Bretlandi til að mynda er hlutfallið undir tveimur prósentum.

Þá verður vetni einnig mikið til umræðu í dag. Orka náttúrunnar framleiðir grænt vetni en að sögn Berglindar eru þau komin styttra þar en með rafbílavæðinguna.

„Það er mikið vetni framleitt í heiminum í dag en minnst af því er framleitt með endurnýjanlegri orku og það er vandamál,“ segir hún.

„Ef við ætlum að nota vetni til að fara úr jarðefniseldsneyti þá verður vetnið að vera grænt, sem sagt framleitt með endurnýjanlegu rafmagni. Það kemur ekkert annað til greina því að annars er það ekki umhverfisvænt,“ segir Berglind.

Aðrar samgöngur verða einnig til umræðu á ráðstefnunni, til að mynda skipaflutningar og flug, sem eru einnig komin styttra á veg hér á landi. Berglind segir þannig að Ísland geti lært ýmislegt.

„Það er bara kominn svolítill samhljómur í það að það er ekki eftir neinu að bíða og það er bara þannig,“ segir Berglind.

„Þó að við séum góð í mörgu þá getum við alltaf lært, ekki spurning. Það er mikið af fólki með gríðarlega reynslu og þekkingu hérna sem við getum lært heilmikið af, og líka miðlað því sem við höfum lært.“


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.