Lífið

„Maður er alveg tómur, eins og það sé búið að taka loft úr blöðru“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Valgerður var lögð í gróft einelti í grunnskóla sem hefur fylgt henni allt lífið.
Valgerður var lögð í gróft einelti í grunnskóla sem hefur fylgt henni allt lífið.

Valgerður Helga Björnsdóttir varð fyrir grófu einelti í grunnskóla sem hafði djúpstæð áhrif á hennar líf. Hún hefur glímt við þunglyndi frá tólf ára aldri, mjög alvarlegu og vanlíðan hefur verið það mikil að hún hefur tvívegis reynt að taka eigið líf.

Í dag hefur hún náð góðum bata með aðstoð fagaðila, hefur tekið sjúkdóminn í sátt og lært að lifa með honum, starfar á leikskóla og lítur björtum augum til framtíðar.

Eva Laufey hitti Valgerði á dögunum og fékk að heyra hennar sögu í Íslandi í dag á Stöð 2.

„Allt í einu var mér ekki boðið í afmæli og það voru miðar látnir ganga um bekkinn og ég fékk enga miða. Ég vissi alveg hvað stóð á miðunum og svo var ég bara hunsuð. Þær fóru að gera grín að fötunum sem ég var í. Ég kom kannski með skopparabolta í skólann og það var allt tekið af mér,“ segir Valgerður og heldur áfram.

Kláðaduft í nærbuxurnar

„Þær eltu mig og hrópuðu einhverjum ókvæðisorðum að mér. Allt í einu var maður orðin mjög óvinsæl þó ég hafi ekki gert neitt. Þegar þetta var búið að standa yfir í einhvern tíma þá fór maður að trúa því að ég ætti þetta skilið. Ef ég tala um alvarlegasta atvikið, þá var ég í leikfimi og maður fer í búningsklefann og skiptir um föt. Þegar ég kem svo upp þá finn ég ekki buxurnar mínar og það var búið að setja kláðaduft í nærbuxurnar mínar. Ég gat ekki farið í nein föt og ég var að koma úr sturtu og dreif mig þá í úlpu og setti handklæði yfir mig og hljóp grátandi. Ég var að fara í matreiðslu og þá sagði ég fyrst frá hvað hafði skeð.“

Valgerður segir að þarna hafi matreiðslukennarinn farið til skólastjórans og sagt honum frá.

„Það var talað við foreldrana og stelpurnar sem voru gerendur. Mestan part eftir að þetta skeði hef ég átt mjög erfitt með að treysta fólki. Það eru kannski fjögur til fimm ár síðan að ég fór að hugsa að það væri í lagi að eiga vini, þeir vilja þér ekkert illt. Þetta er liðin tíð en ég vona að fólk geri sér grein fyrir því að þetta getur haft mjög slæm áhrif á fólk að vera lagt í einelti. Ég var í Hlíðaskóla og svo fór ég í nýjan skóla og það var mér til happs að vera í Hagaskóla í 9. og 10. bekk og þá fór ég á fullt í leiklist og eignaðist nýja vini og leið mjög vel í tvö ár.“

Rúmföst í tvo mánuði

Valgerður átti góð ár í Hagaskóla en fór síðan í Menntaskólann við Hamrahlíð þar sem gamlir bekkjarfélagar og gerendur í hennar eineltismáli voru einnig í skólanum. Gamlar minningar rifjuðust upp sem gerði Valgerði erfitt fyrir en hún segir að kórinn og sönginn hafi bjargað sér á þessum árum. Þunglyndi kraumaði en það komu góðir tímar inn á milli.

„Maður upplifir algjört vonleysi og ég var kannski rúmföst í tvo mánuði og sá bara það sem ég hafði gert rangt. Svo leið tíminn og þú lást bara þarna í þínum eigin heimi. Ekkert komst að nema þú og þín líðan. Jú maðurinn kom og gaf mér að borða, ég fór kannski aðeins niður og fékk mér kaffi en svo bara fer maður aftur inn. Ég hafði mig varla af stað í sturtu, ég hafði ekki einbeitingu að horfa á sjónvarp eða lesa en ég les mjög mikið annars. Maður er alveg tómur, eins og það sé búið að taka loft úr blöðru og alveg hjálparvana.“

Hún segist hafa hugsað hvort hún væri að íþyngja hennar nánustu og hvort þau væru ekki betur sett án hennar.

„Það er mjög slæm tilfinning. Ég hef reynt þetta tvisvar en sem betur fer heppnaðist þetta ekki. Þegar ég var fertug gleymdi ég að ég átti alveg góð tímabil. Ég hef ekki verið þunglynd í þrjátíu ár upp á hvern einasta dag. Þú kannski manst frekar eftir þessu en ég er búin að læra núna að það þýðir ekki að vera bitur og maður verður bara að líta á þetta sem eitthvað sem er hægt að læra af. Ef einhver kemur og er þunglyndur og vill tala um það þá get ég kannski leiðbeint eitthvað.“

Hér að neðan má sjá innslagið í heild sinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×