„Þetta er fullkominn endir á tímabilinu. Það er frábært að fara í sumarfrí verandi Íslands- og bikarmeistari,“ sagði Júlíus Magnússon.
Júlíus var ánægður með hvernig Víkingur spilaði leikinn þrátt fyrir að öll pressan fyrir leik var á hans liði.
„Pressan var á okkur, ÍA hafði engu að tapa og gáfu okkur góðan leik. Spennustigið var eins og gegn Leikni í lok leik deildarinnar og var þetta fullkominn vika.“
Júlíus var ánægður með spilamennsku Víkings í leiknum og eftir góðan fyrri hálfleik var seinni hálfleikur formsatriði.
„Í fyrri hálfleik héldum við boltanum vel, við beittum líka góðum skyndisóknum og í seinni hálfleik var formsatriði að klára leikinn. Heilt yfir frábær leikur.“
Víkingur fékk fullt af færum í seinni hálfleik og var með ólíkindum að markið hafa ekki komið fyrr en í uppbótatíma.
„Við hefðum átt að vera löngu búnir að skora og klára leikinn á fyrsta klukkutímanum. Eins og oft áður á tímabilinu vorum við klaufar en fínt að klára þetta marki undir lok leiks,“ sagði Júlíus Magnússon að lokum.