Ný­liðarnir sáu aldrei til sólar gegn Liver­pool

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Roberto Firmino skoraði þrennu í dag.
Roberto Firmino skoraði þrennu í dag. John Powell/Getty Images

Claudio Ranieri byrjar tíma sinn hjá Watford ekki vel en liðið tapaði 5-0 fyrir Liverpool í fyrsta leik hans við stjórnvölin. Nýliðar Watford áttu aldrei möguleika í dag og ljóst að Ranieri á erfitt verkefni fyrir höndum á Vicarage Road .

Fyrsti leikur dagsins í ensku úrvalsdeildinni var leikur kattarins að músinni. Engu máli skipti þó Liverpool væri án Alisson og Fabinho, liðið var ljósárum betra en Watford sem skiptu um þjálfara nýverið.

Sadio Mané kom gestunum frá Bítlaborginni yfir strax á 9. mínútu eftir sendingu Mohamed Salah. Roberto Firmino tvöfaldaði forystuna skömmu fyrir lok fyrri hálfleiks þegar hann renndi boltanum yfir marklínuna eftir sendingu James Milner.

Fimino skoraði annað mark sitt og þriðja mark Liverpool þegar aðeins sjö mínútur voru liðnar af síðari hálfleik. Tveimur mínútum síðar bætti Salah við fjórða marki gestanna og staðan því orðin 4-0.

Stefndi allt í að það yrðu lokatölur leiksins en Firmino bætti við þriðja marki sínu og fimmta marki Liverpool í uppbótartíma, lokatölur því 5-0 Liverpool í vil.

Liverpool fer á topp deildarinnar með sigri dagsins en liðið er með 18 stig að loknum 8 leikjum. Þeir eru eina lið deildarinnar sem hefur ekki tapað leik í deildinni. Chelsea er í 2. sæti með 16 stig og á leik til góða. Watford er í 15. sæti með 7 stig.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.