Innlent

Dvelja á bráðamóttöku vegna plássleysis

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir, formaður Fagráðs í bráðahjúkrun.
Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir, formaður Fagráðs í bráðahjúkrun. Vísir/Adelina Antal

Á fimmta tug sjúklinga þurfa að dvelja á bráðamóttöku hverju sinni því ekki er pláss fyrir þá á legudeild, að sögn formanns Fagráðs í bráðahjúkrun. Ástandið sé grafalvarlegt.

Fagráð í bráðahjúkrun hefur ítrekað krafist aðgerða vegna vanda á bráðamóttöku Landspítalans, fyrst árið 2016 þegar um tólf til tuttugu legudeildarsjúklingar voru innlagðir á bráðamóttöku hverju sinni. Nú, fimm árum síðar, eru þeir allt að fjörutíu og fjórir talsins. Vandinn hefur því tvöfaldast á þessum tíma.

„Okkur finnst eins og það sé ekki hlustað og sé kannski ekki sú virðing fyrir hjúkrun og hjúkrunarstörfum í samfélaginu sem mætti vera til þess að halda uppi þessu heilbrigðiskerfi sem ég held að við öll sem þjóð viljum hafa. Heilbrigðiskerfið verður ekki rekið án hjúkrunarfræðinga,” segir Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir, formaður ráðsins.

Þórdís segir að með þessu áframhaldi sé ekki hægt að tryggja öryggi sjúklinga. Þá óttist hjúkrunarfræðingar að gera mistök í starfi.

„Hjúkrunarfræðingar óttast um réttarstöðu sína ef slík mistök verða. Sem betur fer er ekkert algengt að þau gerist vegna þess að allir eru að gera sitt besta en þeim finnst fagmennsku sinni ógnað þegar aðstaðan er stöðugt slík að þeir eru með of marga sjúklinga of lengi.”

Hún tekur fram að um sé að ræða heildarvanda Landspítala og því eigi fólk ekki að óttast það að mæta á bráðamóttöku vegna álagsins þar. Hins vegar þurfi það að vera skýrt að sjúklingar eigi ekki að dvelja þar lengur en í sex tíma og eftir það eigi þeir að komast inn á legudeildir.

„Hjúkrunarfræðingar á bráðamóttökunni hafa fengið nóg af því að vera stöðugt að sinna sjúklingum sem ættu að vera annars staðar í kerfinu, annars staðar á spítalanum og vilja bara aðgerðir strax,” segir Þórdís.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×