Fótbolti

Stóðu í skugganum en tæpar tvær milljónir sáu þær mæta Íslandi

Sindri Sverrisson skrifar
Hollenska landsliðið var nokkuð sannfærandi gegn Íslandi á Laugardalsvelli á þriðjudag og vann 2-0 sigur.
Hollenska landsliðið var nokkuð sannfærandi gegn Íslandi á Laugardalsvelli á þriðjudag og vann 2-0 sigur. vísir/hulda margrét

Einn af vitnisburðum þess hvernig knattspyrnu kvenna hefur vaxið fiskur um hrygg á síðustu árum er snaraukinn áhugi Hollendinga á kvennalandsliði sínu sem mætti Íslandi í vikunni.

Þrátt fyrir að Holland teljist ein af stórþjóðum knattspyrnusögunnar þá var áhugi á hollenska kvennalandsliðinu afar takmarkaður fyrir ekki meira en áratug síðan. Þá var liðið þó oftast í 14. sæti heimslistans eða þar um bil og komst í undanúrslit á EM 2009.

Þegar Holland mætti Íslandi í undankeppni HM á þriðjudaginn, á Laugardalsvelli, fylgdust hins vegar 1,8 milljón manns með beinni útsendingu í hollenska sjónvarpinu. Þeir áhorfendur ættu að hafa verið ánægðir með úrslitin; 2-0 sigur Hollendinga.

Þessar áhorfstölur ríma ágætlega við áhugann á hollenska liðinu á Ólympíuleikunum í Tókýó í sumar þar sem liðið féll úr keppni í 8-liða úrslitum eftir vítaspyrnukeppni gegn Bandaríkjunum. Um 2,4 milljónir sáu leikinn við Bandaríkjunum, segir Emma Coolen sem hefur fjallað um hollenska kvennalandsliðið og fylgdi því meðal annars eftir á HM 2019.

Hollenski hópurinn sló í gegn á heimavelli á EM 2017 og landaði þar Evrópumeistaratitlinum, og sá árangur festi leikmennina endanlega í sessi sem stjörnur í heimalandinu sem fylgst er með í sjónvarpi.

Uppgangurinn var því hraður eftir að Holland féll úr leik í riðlakeppni EM árið 2013, eftir skallamark Dagnýjar Brynjarsdóttur í 1-0 tapi gegn Íslandi. Þá voru stjörnur samtímans á borð við Lieke Martens, Daniëlle van de Donk og Sherida Spitse byrjaðar að gera sig gildandi í hollenska liðinu.

Hollendingar fagna Evrópumeistaratitlinum á heimavelli árið 2017.Getty

Liðið hefur verið með á öllum stórmótum síðan þá, fyrir utan Ólympíuleikana 2016, og í hópinn hafa bæst stjörnur á borð við markamaskínuna Vivianne Miedema úr Arsenal og Jackie Groenen, miðjumann Manchester United, sem skoraði glæsimark gegn Íslandi, auk fleiri.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×