Erlent

Skera upp herör gegn öflugum gróðurhúsalofttegundum í kælibúnaði

Kjartan Kjartansson skrifar
Loftræstitæki utan á íbúðablokk í New York. Vetnisflúorkolefni eru notuð í slíkjum tækjum og hluti þeirra lekur út í andrúmsloftið þar sem þau eiga þátt í hlýnun jarðar.
Loftræstitæki utan á íbúðablokk í New York. Vetnisflúorkolefni eru notuð í slíkjum tækjum og hluti þeirra lekur út í andrúmsloftið þar sem þau eiga þátt í hlýnun jarðar. AP/Jenny Kane

Umhverfisstofnun Bandaríkjanna tilkynnti um verulega hertar reglur um framleiðslu svonefndra vetnisflúorkolefna, öflugra gróðurhúsalofttegunda sem eru notaðar í ískápum og loftkælitækjum. 

Vetnisflúorkolefni (HFC) komu í staðinn fyrir ósoneyðandi efni sem voru bönnuð með Montreal-sáttmálanum árið 1987 í ýmsum kælibúnaði. Þau hafa hins vegar  hundrað til þúsund sinnum meiri hlýnunarmátt en koltvísýringur.

Því var ákveðið að draga verulega úr notkun vetnisflúorkolefna með svonefndum Kigali-viðauka við Montreal-sáttmálann árið 2016. Samkvæmt honum eiga Bandaríkin og önnur stór iðnríki að draga úr losun efnanna um 85% fyrir árið 2036. Viðaukinn á að koma í veg fyrir allt að hálfrar gráðu viðbótarhlýnun jarðar fyrir árið 2100.

Nýju reglurnar sem kynntar voru í dag eiga að taka í gildi í október. Þær eiga að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda sem jafnast á við 4,5 milljarða tonna af koltvísýringi fyrir árið 2050. Gina McCarthy, loftslagsráðgjafi Bandaríkjastjórnar, sagði það jafnast á við þrjú ár af losun bandaríska orkugeirans.

Bandaríkin hafa þó enn ekki staðfest Kigali-viðaukann. Donald Trump, fyrrverandi forseti, lagði hann aldrei fyrir öldungadeild Bandaríkjaþings og afnam aðgerðir sem áttu að ná markmiðum hans.

Joe Biden, núverandi forseti, lofaði að fullgilda viðaukann en hann hefur enn ekki lagt hann fyrir þingið til samþykkis, að sögn Washington Post.

Í tölum sem Umhverfisstofnun birti fyrr á þessu ári kom fram að losun frá kælimiðlum hefði aukist um 27% frá 2018 til 2019.  Losun frá kælimiðlum var um sjö prósent af þeirri losun sem er á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda. Stofnunin taldi að losun frá kælimiðlum hefði náð hámarki árið 2019 vegna aðgerða sem gripið hefur verið til og að hún eigi eftir að minnka mikið fyrir árið 2030.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.