Innlent

Varð vitni að því þegar allt fór af stað: „Byrjar að flæða alveg ótrúlegt magn“

Tryggvi Páll Tryggvason og Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifa
Úr myndbandi sem tekið var rétt eftir að hraumstraumurinn fór að flæða.
Úr myndbandi sem tekið var rétt eftir að hraumstraumurinn fór að flæða. Skjáskot.

Leiðsögumaður sem var við gosstöðvarnar við Fagradalsfjall í dag varð vitni að því að þegar gífurlegt magn af hrauni braust út í miklum hraunstraumi. Svæðið var rýmt í morgun vegna hraunstraumsins en töluverður fjöldi fólks var við gosstöðvarnar í dag. Meðal annars mátti sjá ferðalanga klöngrast upp á hrauninu í beinni útsendingu í Kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.

Svo virðist sem að hrauntjörn skammt undan gígnum hafi brostið með þeim afleiðingum að gífurlegt magn af hrauni fór af stað. Mikill hiti fylgdi strauminum og þurftu björgunarsveitarmenn meðal annars frá að hverfa um tíma.

Ingólfur Páll Matthíasson, leiðsögumaður, varð vitni að því þegar straumurinn fór af stað en sjá má myndband sem Ingólfur tók skömmu síðar á vettvangi hér í fréttinni.

Ingólfur og félagar voru við gosstöðvarnar um klukkan hálf tíu í morgun.

„Ég bjóst við að sjá einhverjar slettur yfir barmana á honum en svo brotnar þarna þak úr helli sem er orðinn stappafullur af kviku og flæðir út úr gígnum undir jarðskorpunni eins og gerist þegar svona dyngjugos eru í dágóðan tíma, “ sagði Ingólfur.

Atburðarrásin gerðist hratt.

„Það bara byrjar að flæða alveg ótrúlegt magn upp úr þessum helli, alveg það mesta sem ég hef séð. Ég er búinn að koma hérna alveg tuttugu sinnum.“

Sigurður Bergmann varðstjóri hjá lögreglunni á Suðurnesjum var á vettvangi í dag og eins og sjá má í fréttinni hér að neðan lýsti hann því hvar hraunið kom niður í Nátthaga. Hann segir ljóst að hætta hafi verið á ferðum.

„Klárlega var hætta þegar hraunið kom fram af leiðigörðunum. Björgunarsveitarmenn þurftu frá að hverfa vegna hita og slæmra loftgæða,“ sagði Sigurður.

Lillý Valgerður Pétursdóttir fréttamaður var á vettvangi í dag og í beinni útsendingu lýsti hún því meðal annars hvað björgunarsveitir hafa verið að gera í dag við gosstöðvarnar, en meðal annars þurfti að bjarga tveimur ferðalöngum af Gónhóli, en þar voru þeir komnir í vandræði.

Í kvöldfréttunum mátti einnig sjá, í beinni útsendingu, hvar ferðalangar voru að klöngrast upp á hrauninu, en margbúið er að vara við hættunum sem því getur fylgt.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×