Sport

Fyrsta tap Tottenham í deildinni staðreynd

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
Patrick Vieira vann sinn fyrsta sigur sem stjóri Crystal Palace
Patrick Vieira vann sinn fyrsta sigur sem stjóri Crystal Palace EPA-EFE/ANDY RAIN

Crystal Palace vann rétt í þessu góðan sigur á taplausu Tottenham liði á heimavelli, 3-0.

Fyrir leikinn voru Tottenham taplausir eftir að hafa unnið fyrstu þrjá leikina á tímabilinu, alla með einu marki gegn engu. Bjuggust því flestir við sigri hvítklæddra í dag. En annað kom á daginn.

Eftir jafnan fyrri hálfleik þar sem bæði liðin sköpuðu sér mestmegnis hálffæri þá breyttist leikurinn þegar að Japhet Tagnanga fékk að líta rauða spjaldið á 58. mínútu. Tanganga var á hálum ís eftir að hafa fengið fyrra gula spjaldið sitt nokkrum mínútum áður fyrir brot á Wilfried Zaha og var dómari leiksins ekki lengi að draga upp seinna gula þegar Tanganga var seinn í tæklingu.

Í kjölfarið sóttu heimamenn stíft og fengu vítaspyrnu á 76. mínútu þegar að Ben Davies handlék boltann inni í teignum. Zaha fór á punktinn, gerði engin mistök og skoraði af öryggi framhjá Hugo Lloris í markinu.

En Crystal Palace voru ekki hættir. Á 84. mínútu vann Zaha boltann ofarlega á vellinum og geystist fram völlinn. Hann átti svo fyrirgjöf á Odsonne Edouard sem skoraði með hnitmiðuðu skoti úr teignum. 2-0 og Tottenham búið að játa sig sigrað. Edouard var svo aftur á ferðinni á 92. mínútu eftir skyndisókn og skoraði þriðja markið. Þetta var fyrsti deildarsigur Palace undir stjórn Patrick Vieira.

Tottenham eru ennþá á toppi deildarinnar með níu stig eftir fjóra leiki en nokkur lið geta komist ofar í dag. Crystal Palace er með fimm stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×