Sport

Bergrún stórbætti eigið Íslandsmet í Tókýó

Valur Páll Eiríksson skrifar
Bergrún Ósk bætti eigið Íslandsmet í dag.
Bergrún Ósk bætti eigið Íslandsmet í dag. Vísir/Vilhelm

Bergrún Ósk Aðalsteinsdóttir bætti eigið Íslandsmet í kúluvarpi er hún keppti í flokki F37, hreyfihamlaðra, á Ólympíumóti fatlaðra í Tókýó í dag. Hún lenti í sjöunda sæti í greininni.

Bergrún Ósk átti Íslandsmetið í greinini í sínum flokki, upp á 9,10 metra, fyrir keppni dagsins. Hún stórbætti það met um 47 sentímetra strax í fyrsta kasti sem var 9,57 metrar.

Það reyndist hennar lengsta kast í dag en hún kastaði einnig yfir fyrra meti í þriðja kasti sínu sem var 9,41 metri. Annað og fjórða kast Bergrúnar voru ógild en hún kastaði einnig 9,01 metra og 8,44 metra.

Heimsmethafinn Lisa Adams frá Nýja-Sjálandi vann öruggan sigur í greininni en hún kastaði lengst 15,12 metra, 38 sentímetrum frá heimsmeti sínu upp á 15,50 metra. Na Mi frá Kína hlaut silfur með kasti upp á 13,69 metra og landa hennar Yingli Li brons með 13,33 metra.

Bergrún Ósk verður aftur í eldlínunni á morgun þegar hún keppir í langstökki.


Tengdar fréttir

Thelma Björg áttunda í Tókýó

Thelma Björg Björnsdóttir varð áttunda í 100 metra bringusundi í flokki SB5, hreyfihamlaðra, á Ólympíumóti fatlaðra í Tókýó í morgun. Hún hefur stórbætt tíma sinn frá síðasta Ólympíumóti í Ríó fyrir fimm árum.

Már fimmti á nýju Íslandsmeti

Sundkappinn Már Gunnarsson kom fimmti í bakkann í 100 metra baksundi í flokki S11 blindra og sjónskertra á Ólympíumóti fatlaðra í Tókýó í morgun. Hann bætti eigið Íslandsmet í greininni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×