Innlent

Sidekick-appið ekki lengur notað til að fylgjast með Covid-sjúklingum

Birgir Olgeirsson skrifar
Runólfur Pálsson er yfirmaður Covid-göngudeildar á Landspítala.
Runólfur Pálsson er yfirmaður Covid-göngudeildar á Landspítala. Vísir/Sigurjón

Í fyrstu bylgju kórónuveirufaraldursins notaðist Landspítalinn við forritið Sidekick til að fylgjast með þeim Covid-sjúklingum sem ekki þurftu að leggjast inn á spítala. Forritið virkar þannig að sjúklingar haka við valmöguleika um líðan sína og geta læknar þá yfirfarið niðurstöðuna og metið hvort þörf sé á inngripi.

Átti forritið að minnka álagið á símvöktunarkerfi Landspítalans en í núverandi bylgju faraldursins hefur ekki verið notast við forritið.

Runólfur Pálsson, yfirmaður Covid-göngudeildar Landspítalans,  segir það eiga sér skýringar. Undanþága hafi fengist fyrir forritinu í fyrstu bylgju faraldursins. Var það notað þegar minna var vitað um áhrif veirunnar á mannslíkamann og bóluefni við veirunni ekki komið til sögunnar.

Nú sé stór hluti þeirra sem sýkjast einkenna litlir. Því hafi verið ákveðið að hætta notkun forritsins því annars þyrfti mikla vinnu til að yfirfara öll gögnin frá hverjum einum og einasta sem sýkist af Covid. Í stað þess er nú tekið símtal þegar sýkingin liggur fyrir og svo símtal þegar einangrunin er að líða undir lok. Að öðru leyti sé ekki eins mikið eftirlit með þeim sem eru einkennalitlir. Höfuðáhersla sé lögð á að veita þeim eftirlit sem eru veikir fyrir.

Þrátt fyrir að hringurinn hafi verið þrengdur er álagið vegna símavöktunar í þessari bylgju mikið að sögn Runólfs. Í fyrstu bylgju faraldursins var lokað fyrir alla valkvæða starfsemi og því fengust starfsmenn auðveldlega í þau verkefni. Nú sé staðan önnur því spítalinn sé í fullri starfsemi.

„En við ætlum okkur að nota Sidekick í farsóttarvinnu í framtíðinni. Þetta hitti okkur illa fyrir í sumar því við vorum að glíma við að innleiða tæknina og þetta krefst mannafla. En þetta forrit og Heilsuvera, sem er í þróun, mun nýtast í öllu viðbragði við farsóttum framtíðarinnar.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×