Erlent

Örvunarskammtar draga verulega úr smithættu í Ísrael

Kjartan Kjartansson skrifar
Sextugu fólki og eldra hefur staðið til boða að fá örvunarskammt í Ísrael frá því í lok júlí. Yngra fólki verður nú boðið að verða endurbólusett.
Sextugu fólki og eldra hefur staðið til boða að fá örvunarskammt í Ísrael frá því í lok júlí. Yngra fólki verður nú boðið að verða endurbólusett. Vísir/EPA

Þriðji skammturinn af bóluefni Pfizer dró verulega úr líkum á smiti og alvarlegum veikindum hjá sextugu fólki og eldra borið saman við þá sem fengu tvo skammta samkvæmt upplýsingum ísraelskra heilbrigðisyfirvalda.

Ísraelsk yfirvöld byrjuðu að endurbólusetja fólk eldra en sextugt 30. júlí til að bregðast við áhyggjum af því að virkni bóluefna dofni með tímanum, sérstaklega hjá eldra fólki. Niðurstöður sem kynntar voru á fundi sérfræðinga fyrir helgi benda til þess að örvunarskammtur hafi bætt vörn Pfizer-bóluefnisins til muna, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Vörn fólks gegn smiti tíu dögum eftir örvunarskammt reyndist fjórfalt meiri en eftir tvo skammta. Þá var vörnin gegn alvarlegum veikindum og sjúkrahúsinnlögnum fimm- til sexfalt meiri eftir þriðja skammtinn af bóluefninu.

Tilkynnt var í síðustu viku að fólk allt niður í fertugt gæti fengið örvunarskammt en einnig enn yngri óléttar konur, kennarar og heilbrigðissstarfsmenn. Aðeins þeir sem fengu seinni skammt fyrir að minnsta kosti fimm mánuðum eiga kost á að fá örvunarskammt.

Útbreiðsla kórónuveirusmita í Ísrael er ein sú mesta í heiminum um þessar mundir þrátt fyrir að landið hafi verið með þeim allra fyrstu sem réðust í bólusetningu landsmanna. Nú hafa um 1,5 milljónir af 9,3 milljónum landsmanna fengið örvunarskammt af bóluefni.


Tengdar fréttir

Efast um þörfina á örvunarskömmtum

Efasemdaraddir eru uppi á meðal heilbrigðisvísindamanna um þörfina á því að gefa fólki örvunarskammta af bóluefni gegn kórónuveirunni. Ekki sé ljóst að virkni efnanna gegn alvarlegum veikindum minnki með tímanum og þá sé brýnna að bólusetja þá sem hafa enn ekki verið bólusettir víðsvegar um heim.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×