Sport

Fyrsti Indverjinn til að vinna til verðlauna í frjálsum í 121 ár

Valur Páll Eiríksson skrifar
Chopra skrifaði söguna í dag.
Chopra skrifaði söguna í dag. Christian Petersen/Getty Images

Indverjinn Neeraj Chopra varð í dag fyrsti Indverjinn í sögunni til að vinna til gullverðlauna í frjálsum íþróttum á Ólympíuleikum. Hann fagnaði sigri í spjótkasti karla eftir kast upp á 87,58 metra.

Hinn 23 ára gamli Chopra sendi tóninn strax í byrjun með sínu fyrsta kasti þar sem spjótið fór rétt rúma 87 metra. Hann bætti þá um betur með þriðja kasti sínu sem fór 87,58 metra og komst enginn því nærri.

Tékkarnir Jakub Vadlejch og Vitezslav Vesely voru honum næstir og hlutu silfur og brons. Vadlejch kastaði 86,67 metra en Vesely 85,44 metra.

Indland hefur aðeins hlotið tvö verðlaun í frjálsum íþróttum fyrir keppni dagsins. Norman Pritchard hlaut silfur í bæði 200 metra hlaupi og 200 metra grindahlaupi á Ólympíuleikunum árið 1900 í París í Frakklandi.

121 ári síðar komu næstu verðlaun, og jafnframt fyrsta gull Indlands í frjálsum íþróttum, sem Chopra vann í dag.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.