Sport

Annan daginn í röð féll heimsmetið í 400 metra grindahlaupi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sydney McLaughlin var að vonum ánægð með heimsmetið sitt í 400 metra grindahlaupi.
Sydney McLaughlin var að vonum ánægð með heimsmetið sitt í 400 metra grindahlaupi. getty/Michael Steele

Sydney McLaughlin frá Bandaríkjunum sló eigið heimsmet í 400 metra grindahlaupi í úrslitum á Ólympíuleikunum í Tókýó í nótt.

Annan daginn í röð féll því heimsmetið í 400 metra grindahlaupi en Norðmaðurinn Karsten Warholm rústaði eigin heimsmeti í greininni í úrslitum í karlaflokki í gær.

McLaughlin bætti eigið heimsmet einnig umtalsvert í nótt. Hún kom í mark á 51,46 sekúndum en gamla metið hennar var 51,90 sekúndur.

Dalilah Muhammad frá Bandaríkjunum varð önnur á 51,58 sekúndum sem er næstbesti tími sögunnar. Femke Bol frá Hollandi lenti í 3. sæti á 52,03 sekúndum sem er Evrópumet.

Muhammad byrjaði úrslitahlaupið best og var með forystuna framan af. En á síðustu fimmtíu metrunum seig McLaughlin fram úr og tryggði sér sigurinn.

„Ég sá að Daliah var á undan mér þegar ein grind var eftir. Ég hugsaði bara um að gera mitt. Hlaupið byrjar eiginlega ekki fyrr en á sjöundu grind. Ég vildi bara gefa allt í þetta sem ég átti,“ sagði McLaughlin eftir úrslitahlaupið.

„Þetta snýst um að treysta þjálfuninni þinni, þjálfaranum þínum og það kemur þér á leiðarenda.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×