Sport

Norðmaðurinn með heimsmet og Ólympíugull

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Karsten Warholm fagnar sigri og heimsmetinu í nótt með því að rífa treyjuna sína.
Karsten Warholm fagnar sigri og heimsmetinu í nótt með því að rífa treyjuna sína. AP/David J. Phillip

Karsten Warholm tryggði sér Ólympíugull í Tókýó í nótt um leið og hann var fyrsti maður sögunnar sem hleypur 400 metra grindahlaup á undir 46 sekúndum.

Warholm var að bæta sitt eigið heimsmet og það um 76 hundraðshluta. Hann kom í mark á 45,94 sekúndum en gamla metið var hlaup upp á 46.70 sekúndum síðan í Osló í byrjun júlí síðastliðnum.

Bandaríkjamaðurinn Rai Benjamin fékk silfrið en hann hljóp einnig undir gamla heimsmetinu eða á 46,17 sekúndum. Alison dos Santos frá Brasilíu fékk brons.

Warholm var mjög sáttur í lok hlaupsins að hann reif treyjuna sína en svo var eins og hann tryði því ekki að hafa komist undir 46 sekúndurnar.

„Stundum voru þjálfararnir mínir að segja að þetta væri möguleiki með fullkomnu hlaupi. Það var samt erfitt að ímynda sér það því þetta er svo stór þröskuldur og þetta er eitthvað sem maður hefur ekki leyft sér að dreyma um,“ sagði Karsten Warholm.

Það tók menn til ársins 1948 að komast undir 46 sekúndurnar í 400 metra hlaupi án grindanna en heimsmetið í 400 metra hlaupi er 43,03 sekúndur. Það er aðeins 2,91 fljótara en hjá Warholm sem fór í gegnum tíu grindur á leið sinni.

„Ég vissi samt að þetta væri möguleiki með fullkomnu hlaupi á Ólympíuleikunum. Ég trúi þessu samt ekki ennþá. Þetta er stærsta stund lífsins,“ sagði Warholm.

Hin þýska Malaika Mihambo vann langstökkið með stökki upp á 7,00 metra í sinni lokatilraun. Brittney Reese frá Bandaríkjunum fékk því silfur á öðrum leikunum í röð en henni tókst ekki að svara Mihambo í sínu lokastökki.

Ese Brume frá Nígeríu stökk jafnlangt og Reese en varð að sætt sig við brons þar sem sú bandaríska stökk lengra í sínu næstsíðasta stökki.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.