Sport

Thompson-Herah bætti gullinu í 200 metrunum við gullið sitt í 100 metrunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elaine Thompson-Herah fagnar sigri sínum í dag.
Elaine Thompson-Herah fagnar sigri sínum í dag. AP/Petr David Josek

Elaine Thompson-Herah frá Jamaíka er spretthlaupsdrottning Ólympíuleikanna í Tókýó eftir sigur í úrslitum 200 metra hlaupsins í dag. Ungar hlaupakonur voru að gera góða hluti í bæði 200 og 800 metrunum.

Thompson-Herah vann hundrað metrana á dögunum og enginn átti svar við henni heldur í tvö hundruð metrunum í dag. Hún endurtók þannig leikinn frá því í Ríó fyrir fimm árum þegar hún vann einnig báðar þessar greinar. Þessu hefur engin kona náð í sögunni.

Thompson-Herah kom í mark á 21,53 sekúndum sem er nýtt landsmet og næstbesti tími sögunnar. Met Florence Griffith Joyner frá Ólympíuleikunum í Seoul 1988 er 21,34 sekúndur og lifir áfram.

Hin átján ára gamla Christine Mboma kom önnur í mark á nýju heimsmeti tuttugu ára og yngri en hún átti rosalegan endasprett og kláraði á 21,81 sekúndum.

Hin bandaríska Gabrielle Thomas vann bronsið á 21,87 sekúndum en goðsögnin frá Jamaíka varð að sætta sig við fjórða sætið og að rétt missa af verðlaunum.

Tvær nítján ára stelpur voru efstar í úrslitum 800 metra hlaups kvenna en þær fimm efstu hlupu allar á nýju persónulegu meti í frábæru hlaupi.

Hin bandaríska Athing Mu varð Ólympíumeistari á nýju bandarísku meti og landa hennar Raevyn Rogers náði síðan bronsinu við marklínuna.

Hin breska Keely Hodgkinson tók silfrið á nýju bresku meti en bæði hún og Mu eru fæddar árið 2002. Landa Keely, Jemma Reekie, var í verðlaunasæti í lokin en rétt missti síðan af þriðja sætinu.

Mu hljóp á 1:55.21 mín. en Hodgkinson kom í mark á 1:55.88 mín. Báðar voru að hlaupa undir heimsmeti tuttugu ára og yngri og þær eru líklegar til að keppa um gullið í þessari grein á stórmótum næstu ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×