Innlent

Sig­mundur Ernir er nýr rit­stjóri Frétta­blaðsins

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Sigmundur Ernir Rúnarsson, hefur starfað í áratugi á fjölmiðlum landsins. Hann sat á þingi fyrir Samfylkinguna árin 2009-2013.
Sigmundur Ernir Rúnarsson, hefur starfað í áratugi á fjölmiðlum landsins. Hann sat á þingi fyrir Samfylkinguna árin 2009-2013.

Sig­mundur Ernir Rúnars­son hefur verið ráðinn nýr rit­stjóri Frétta­blaðsins og aðal­rit­stjóri út­gáfu­fé­lagsins Torgs ehf., sem rekur Frétta­blaðið, DV, Markaðinn og Hring­braut. Hann tekur við aðf Jóni Þóris­syni sem hefur starfað sem rit­stjóri frá haustinu 2019.

Sig­mundur Ernir sat á þingi fyrir Sam­fylkinguna kjör­tíma­bilið 2009 til 2013. Hann er afar reyndur fjöl­miðla­maður og hefur starfað í fjölmið­lun með hléum frá árinu 1981, hjá dag­blaðinu Vísi, Stöð 2, DV, RÚV, Helgar­póstinum og þá var hann frétta­stjóri hjá Frétta­blaðinu árin 2004-2005. Hann hefur starfað sem sjónvarpsstjóri Hringbrautar, sem er í eigu Torgs, síðustu árin.

Í frétt Frétta­blaðsins þar sem til­kynnt er um ráðninguna er haft eftir Sig­mundi Erni að hann sé afar spenntur fyrir nýja starfinu:

„Mitt verk­efni verður að efla frétta­þjónustu og dag­skrár­gerð, há­marka sam­legðar­á­hrif þeirra ó­líku miðla sem út­gáfu­fyrir­tækið Torg rekur og gera þá að skemmti­legum og eftir­sóknar­verðum vinnu­stað.“

Jón Þóris­son segir sjálfur í sömu frétt að það hafi aldrei staðið til hjá honum að staldra lengi við á Frétta­blaðinu:

„Þetta hefur verið við­burðar­ríkur tími og á­kaf­lega skemmti­legur. Hér hef ég kynnst góðu fólki sem ég lít á sem vini mína og saman höfum við komið ýmsu í verk. Ég tók laga­próf fremur seint á ævinni og það stóð aldrei til að staldra lengi við. Nú finnst mér tíma­bært að leita á önnur mið,“ er haft eftir honum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×