Sport

Rússar nýttu sér fjarveru Biles og unnu fyrsta gullið í 29 ár

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Rússnesku stelpurnar fagna gullinu.
Rússnesku stelpurnar fagna gullinu. getty/Jamie Squire

Rússar unnu til gullverðlauna í liðakeppni kvenna í fimleikum á Ólympíuleikunum í Tókýó í dag.

Simone Biles, skærasta fimleikastjarna heims, dró sig úr keppni eftir fyrstu greinina vegna álags.

Rússar nýttu sér fjarveru Biles til hins ítrasta og unnu nokkuð öruggan sigur. Rússland fékk 169.528 í einkunn en Bandaríkin 166.096. Rússar urðu efstir á öllum áhöldum nema á jafnvægisslá.

Bretar enduðu í 3. sæti með 164.096 í einkunn en þetta er í fyrsta sinn síðan á Ólympíuleikunum í Amsterdam 1928 sem þeir komast á verðlaunapall í liðakeppni kvenna. Breska liðið var í sjöunda og næstneðsta sæti eftir fyrri tveimur greinunum en náði sér vel á strik í seinni tveimur greinunum og náði í brons.

Rússar unnu síðast gull í liðakeppni kvenna í fimleikum á Ólympíuleikunum í Barcelona 1992. Bandaríkjakonur unnu 2012 og 2016 en mistókst að vinna gullið þriðju Ólympíuleikana í röð.

Sigurlið Rússlands skipuðu þær Lilia Akhaimova, Angelina Melnikova, Vladislava Urazova og Viktoria Listunova.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×