Erlent

Meirihluti falsfrétta um Covid-19 komi frá tólf einstaklingum

Árni Sæberg skrifar
Mikið er um upplýsingaóreiðu um bólusetningar á miðlum Facebook.
Mikið er um upplýsingaóreiðu um bólusetningar á miðlum Facebook. Getty/Hakan Nural

Mikill meirihluti falsfrétta og hræðsluáróðurs um bólusetningar á samfélagsmiðlum vestanhafs er runninn undan rifjum einungis tólf einstaklinga. Þetta segir í nýrri skýrslu Center for Countering Digital Hate, samtaka sem berjast gegn stafrænu hatri.

Center for Countering Digital Hate, eða CCDH, kalla hópinn „disinformation dozen“ eða upplýsingaóreiðutólfmenningana. Samtökin segja hópinn vera með 59 milljónir fylgjenda á samfélagsmiðlum, þar af langflesta á Facebook.

Samkvæmt greiningu CCDH á yfir 800 þúsund færslum, sem flokka mætti sem falsfréttir um Covid-19 á samfélagsmiðlum, komu 65 prósent þeirra frá tólfmenningunum. Á Facebook er hlutfallið 73 prósent.

Joe Biden Bandaríkjaforseti og Vivek Murphy, heilbrigðisráðherra Bandaríkjanna sögðu í fyrradag að eini faraldurinn sem Bandaríkin væru að glíma við væri faraldur óbólusettra. Þeir kenndu jafnframt samfélagsmiðlum um það hversu margir eru enn óbólusettir.

Meðal tólfmenningana eru læknar, líkamsræktarkappi, heilsubloggari, ofsatrúarmaður og Robert F. Kennedy yngri, bróðursonur Johns F. Kennedy. Kennedy hefur verið mikill andstæðingur bólusetninga af öllu tagi í áraraðir.

Fylgja ekki eigin reglum

„Facebook, Google og Twitter hafa sett regluverk til að koma í veg fyrir dreifingu falsfrétta um bóluefni. Hingað til hefur ekkert þeirra framfylgt eigin reglum á fullnægandi hátt,“ segir Imran Ahmed, forstjóri CCDH, í skýrslunni. „Þau hafa öll verið sérstaklega óvirk í að fjarlægja skemmandi og hættulega upplýsingaóreiðu um bóluefni,“ bætir hann við.

Samfélagsmiðlar hafa stigið skref í rétta átt að því að koma í veg fyrir miðlun upplýsingaóreiðu, einn þeirra hefur fjarlægt aðganga þriggja tólfmenninganna en CCDH segir þau ekki gera nóg. Samtökin hafa kallað eftir því að allir helstu samfélagsmiðlar hætti að gefa hópnum vettvang til að dreifa upplýsingaóreiðu.

„Þar sem miklum meirihluta falsfrétta er dreift af þessum tólf einstaklingum, myndi verulega draga úr dreifingu upplýsingaóreiðu á miðlunum ef þessum nokkru aðgöngum yrði eytt,“ segir í skýrslu CCDH.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×