Erlent

Fjórar milljónir dánar: Yfirmaður WHO skýtur fast á ríkari þjóðir heims

Samúel Karl Ólason skrifar
Tedros Adhanom Ghebreyesus, yfirmaður Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar.
Tedros Adhanom Ghebreyesus, yfirmaður Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. AP/Laurent Gillieron

Skráð dauðsföll vegna Covid-19 eru nú komin yfir fjórar milljónir. Rúmt eitt og hálft ár er síðan faraldur nýju kórónuveirunnar, sem veldur Covid-19, hófst í Kína. Þessi áfangi, ef svo má kalla, náðist í gær en yfirmaður Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og sérfræðingar segja raunverulegu töluna vera hærri.

Tedros Adhanom Ghebreyesus, yfirmaður WHO, gagnrýndi ríkari lönd heimsins á blaðamannafundi í gær. Vísaði hann sérstaklega til þess að í þessum ríkjum væri verið að safna bóluefnum og slaka á sóttvörnum eins og faraldrinum væri lokið.

Hann sagði að faraldurinn væri í uppsveiflu víðsvegar um heiminn og ójöfnuðurinn í bólusetningum væri óforskammaður.

„Það að á þessu stigi í faraldrinum séu milljónir heilbrigðisstarfsmanna óbólusettir er viðbjóðslegt,“ sagði Ghebreyesus á fundinum. Hann ítrekaði einnig að vegna þess hve dreifing bóluefna væri ójöfn, væru ný afbrigði af Covid-19 að vinna kapphlaupið við bóluefnið og það væri ógn gegn vörnum heimsins við faraldrinum.

AP fréttaveitan segir dauðsföll á heimsvísu hafa verið tæplega 54 þúsund í síðustu viku, samkvæmt talningu WHO, og er það lægsta talan frá því í október. Hröð útbreiðsla delta afbrigðisins, sem greindist fyrst á Indlandi, hafi þó hringt viðvörunarbjöllum víða um heim.

Það afbrigði á auðveldara með að smitast milli fólks og hefur greinst í minnst 96 ríkjum heimsins.

Ghebreyesus sagði í gær að hann hefði kallað eftir því að öll ríki heimsins næðu að bólusetja tíu prósent íbúa í september og það hlutfall yrði komið í 40 prósent í lok árs. Þannig væri hægt að bólusetja 70 prósent heimsbúa fyrir mitt næsta ár.

Þá kallaði hann eftir því að ríkustu þjóðir heims tækju höndum saman um þessi markmið. Að ná þeim væri fljótasta leiðin til að binda enda á faraldurinn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×