Erlent

Starfsmenn vöruhúsa Amazon slasast oftar og alvarlegar en aðrir

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Amazon hefur margoft verið gagnrýnt fyrir slæman aðbúnað starfsfólks.
Amazon hefur margoft verið gagnrýnt fyrir slæman aðbúnað starfsfólks. Getty/Rolf Vennenbernd

Starfsmenn vöruhúsa netsölurisans Amazon meiðast oftar og alvarlegar en starfsmenn vöruhúsa annarra fyrirtækja. Alls slasast 5,9 starfsmenn af hundrað alvarlega hjá Amazon, nærri 80 prósent fleiri en hjá öðrum fyrirtækjum.

Um er að ræða niðurstöður rannsóknar Strategic Organizing Center (SOC), bandalags verkalýðsfélaga, en þær byggja á tilkynningum til bandaríska vinnueftirlitsins á árnunum 2017 til 2020.

Amazon hefur löngum sætt gagnrýni vegna þess starfsumhverfis sem starfsfólk býr við, sem má ekki síst rekja til mikillar áherslu fyrirtækisins á hraða afgreiðslu. Þannig hefur meðal annars verið greint frá því að bílstjórar hafi neyðst til að gera þarfir sínar í flöskur og poka, þar sem þeir hafa ekki tíma til að stoppa til að fara á salernið.

Þá var Amazon sakað um það í upphafi kórónuveirufaraldursins að hafa „stytt sér leið“ þegar kom að varrúðarráðstöfunum vegna Covid-19.

Samkvæmt skýrslu SOC meiðast starfsmenn vöruhúsa Amazon ekki aðeins oftar en starfsmenn annarra vöruhúsa heldur eru meiðsl þeirra alvarlegri. Starfsmenn Amazon voru frá að meðaltali 46,3 daga í kjölfar slysa, um viku lengur en starfsmenn annarra vöruhúsa.

Fréttasíðan Motherboard birti fyrr í vikunni bækling, gefinn út af vöruhúsi Amazon í Tulsa, þar sem segir meðal annars að starfsmenn ættu að líta á sig sem „iðnaðaríþróttamenn“. Þeir mættu vænta þess að ganga 21 km á vakt og/eða lyfta 9 tonnum.

Ítarlega umfjöllun um málið má finna hjá BBC.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×