Erlent

Biden lætur rann­saka upp­runa kórónu­veirufar­aldursins

Kjartan Kjartansson skrifar
Joe Biden er sagður láta undan þrýstingi heima fyrir og á alþjóðavettvangi um að krefja Kínverja frekari svara um upptök kórónuveirufaraldursins.
Joe Biden er sagður láta undan þrýstingi heima fyrir og á alþjóðavettvangi um að krefja Kínverja frekari svara um upptök kórónuveirufaraldursins. AP/Evan Vucci

Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur sagt bandarískum leyniþjónustustofnunum að leggja aukna áherslu á að rannsaka uppruna kórónuveirufaraldursins. Þær eiga meðal annars að kanna hvort að kenning um að veiran hafi fyrst borist út frá rannsóknastofu í Kína eigi við rök að styðjast.

Fram að þessu hafa veirufræðingar talið líklegast að nýtt afbrigði kórónuveirunnar hafi stokkið úr dýrum í menn. Kínversk stjórnvöld hafa þó ekki verið samvinnuþýð í rannsókn á upptökunum sem hefur gefið samsæriskenningum um Kínverjar hafi þróað veiruna og sleppt henni viljandi lausri aukið andrými.

Undanfarnar vikur hefur tilgáta um að veiran kunni að hafa sloppið út af rannsóknastofu Veirufræðistofnunarinnar í Wuhan fyrir mistök eða vanrækslu þótt sennilegri í ljósi þess að ekki hefur enn tekist að finna náttúruleg upptök hennar, að sögn Washington Post.

Í yfirlýsingu Biden í dag sagði hann að bandaríska leyniþjónustan aðhyllist nú tvær tilgátur um uppruna faraldursins: annars vegar að hún hafi borist náttúrulega úr dýrum í menn og hins vegar að hún hafi sloppið út af tilraunastofunni í óhappi þar. Leyniþjónustustofnanirnar telji þó ekki nægjanlegar upplýsingar liggja fyrir til þess að skera úr um hvor þeirra sé sennilegri.

Tvær leyniþjónustustofnanir af átján telji líklegast að veiran hafi borist úr dýrum í menn en ein telji leka frá tilraunastofunni sennilegri skýringu. Engin þeirra hafi sterka sannfæringu fyrir því mati, að því er kemur fram í frétt AP-fréttastofunnar.

Fól Biden því bandarískum rannsóknarstofnum að aðstoða við rannsókn á uppruna faraldursins og hvatti hann Kínverja jafnframt til þess að vinna með alþjóðlegri rannsókn. Útilokaði forsetinn þó ekki að raunverulegur uppruni faraldursins verði mögulega alltaf hjúpaður leynd vegna þess að kínversk stjórnvöld neituðu að hleypa erlendum sérfræðingum til Wuhan á upphafsmánuðum faraldursins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×