Innlent

Kemur til greina að óska eftir AstraZeneca frá Norðmönnum

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Svandís er bjartsýn á næstu vikur.
Svandís er bjartsýn á næstu vikur. Vísir/Vilhelm

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir koma til greina að óska eftir bóluefni Astra Zeneca frá Norðmönnum, sem hafa tilkynnt um að þeir muni ekki nota bóluefnið. Bólusetningar eru á undan áætlun hér á landi og áfram stefnt að afléttingu aðgerða í lok næsta mánaðar.

„Það kemur alveg til álita,“ segir Svandís, en Íslendingar fengu sextán þúsund skammta af efninu að láni frá Norðmönnum í síðasta mánuði, á meðan þeir tóku ákvörðun um hvort notkun þess yrði framhaldið eða ekki. Hún segir engar breytingar fyrirhugaðar á notkun Astra Zeneca hér á landi.

„Það er verið að nota Astra Zeneca víðast hvar í Evrópu og sóttvarnalæknir hefur ekki séð ástæðu til að breyta áformum þar um.“

Um fimmtíu prósent landsmanna hefur nú fengið bólusetningu, að fullu eða hluta, og því útlit fyrir að áætlun stjórnvalda um að aflétta öllum aðgerðum innanlands í byrjun júlí muni standast.

„Staðan í bólusetningum er mjög góð. Við erum í raun og veru á undan áætlun þar. Staðan á landamærunum hefur líka verið góð þannig að við sjáum sem betur fer fyrir endann á þessu öllu saman.“

Þá verður fleiri farþegum gert að dvelja í sóttvarnahúsi við komuna til landsins með möguleika á undanþágu, frá og með 18. maí, samkvæmt nýrri auglýsingu heilbrigðisráðherra þess efnis. Sérstök áhættusvæði eru nú 164 talsins en voru 131. Þá munu til dæmis farþegar frá Póllandi og meginlandi Spánar nú geta sótt um undanþágu frá dvöl í sóttvarnahúsi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×