Erlent

Ó­víst að Skoski þjóðar­flokkurinn tryggi sér meiri­hluta

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Nicola Sturgeon fagnar á kosningavöku Skoska þjóðarflokksins.
Nicola Sturgeon fagnar á kosningavöku Skoska þjóðarflokksins. EPA-EFE/ROBERT PERRY

Skotar gengu til kjörstaða í dag en þingkosningar fara nú fram í Skotlandi. Niðurstöður liggja enn ekki endanlega fyrir og óljóst er hvort að Skoski þjóðarflokkurinn nái að tryggja sér meirihluta í þinginu. Nái hann því er líklegt að Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra Skotlands, boði til þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotlands frá Bretlandi.

Eins og staðan er nú hefur flokkurinn tryggt sér 39 af 129 sætum. Frjálslyndir demókratar hafa tryggt sér fjögur sæti, Íhaldsflokkurinn hefur tryggt sér tvö og Verkamannaflokkurinn eitt.

Skoski þjóðarflokkurinn tryggði sér bæði þingsæti miðborgar Edinborgar og náði að tryggja sér sæti Ayr sem íhaldsmenn höfðu áður. Þá hefur flokkurinn einnig náð að snúa Austur-Lothian en á síðasta kjörtímabili var þingmaður þess frá Verkamannaflokknum.

Hér má sjá stöðuna í Skotlandi. Skoski þjóðarflokkurinn hefur tryggt sér 39 sæti það sem af er, Frjálslyndir demókratar fjögur, Íhaldsflokkurinn tvö og Verkamannaflokkurinn hefur tryggt sér eitt sæti.BBC/skjáskot

Enn eiga niðurstöður frá lykilkjördæmum eftir að koma í ljós og kosningasérfræðingar í Skotlandi telja líklegt að stjórnarandstöðuflokkarnir muni tryggja sér einhverja þingmenn þar.

Sir John Curtice, prófessor í stjórnmálafræði við Strathclyde háskólann, segir ólíklegt að Skoski þjóðarflokkurinn nái að tryggja sér meirihluta á þinginu en það sé þó ekki útilokað.

Hægt er að fylgjast nánar með framvindu kosninganna hér.

Sturgeon ávarpaði landsfund Vinstri grænna í dag á myndbandi og sagði hún þar að verði hún endurkjörin sem fyrsti ráðherra Skotlands muni hún viðhalda vináttu Skotlands og Íslands.

„Ég er staðráðin í að viðhalda vináttu landa okkar, sambandi á milli ríkisstjórna okkar og þessara tveggja flokka,“ sagði Sturgeon.

Hún lagði áherslu á samstarf ríkjanna í loftslagsmálum og áherslum á velferðarsamfélagið þar sem ekki væri eingöngu einblínt á hagvöxt heldur vellíðan almennings, heilbrigðismál og menntamál.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×