Erlent

Boða til við­ræðna milli stríðandi fylkinga í Mjanmar

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Leiðtogar Suðaustur-Asíuríkja hafa boðað til viðræðna milli stríðandi fylkinga í Mjanmar og hafa krafist þess að ofbeldi hersins gegn almenningi verði stöðvað strax.
Leiðtogar Suðaustur-Asíuríkja hafa boðað til viðræðna milli stríðandi fylkinga í Mjanmar og hafa krafist þess að ofbeldi hersins gegn almenningi verði stöðvað strax. EPA-EFE/MUCHLIS JR

Leiðtogar Sambands Suðaustur-Asíuríkja, Asean, komust í gær að niðurstöðu um áætlun til að binda endi á ofbeldið sem skekið hefur Mjanmar undanfarna mánuði. Þetta gerðu þeir í samráði við Min Aung Hlaing, æðsta herforingja Mjanmar.

Þá gerðu leiðtogarnir þá kröfu að ofbeldi og morðum á almennum borgurum yrði snarlega stöðvað og að pólitískum föngum verði sleppt. Aung Hlaing er ekki sagður hafa neitað þessari kröfu en heldur ekki hafa lofað því að fylgja henni. Þá boðuðu aðrir leiðtogar til sáttafunda milli herforingjastjórnarinnar og ríkisstjórnar Aung San Suu Kyi, sem var lýðræðislega kjörin í fyrra.

Neyðarfundur leiðtoga Sambands Suðaustur-Asíuríkja fór fram í gær og stóð hann yfir í rúma tvo tíma í Jakarta á Indónesíu.

„Ástandið í Mjanmar er óásættanlegt og á ekki að halda áfram. Ofbeldið verður að stöðva. Tryggja þarf lýðræði, stöðugleika og frið í Mjanmar,“ sagði Joko Widodo, forseti Indónesíu, eftir fundinn í gær.

„Hagsmunir mjanmarska fólksins verður alltaf að vera í forgangi.“

Frá því að herinn rændi völdum þann 1. febrúar síðastliðinn hefur ofbeldi og sundrung ríkt í landinu. Ríkisstjórn og helstu andstæðingar hersins voru þegar handteknir og settir í gæsluvarðhald og hefur aðför að mótmælendum verið mikil. Herforingjastjórnin hefur ítrekað lýst yfir herlögum til að koma í veg fyrir að mótmælendur snúi aftur á götur úti og hafa meira en 700 almennir borgarar farist undanfarna tæpa þrjá mánuði.

Skilaboð leiðtoga Asean á fundinum í gær er talin nokkuð óvenjuleg en meginviðmið sambandsins hefur ávallt verið það að sambandsríki ættu ekki að skipta sér af málum annarra sambandsríkja.

Muhyiddin Yassin, forsætisráðherra Malasíu, tjáði sig um þetta meginviðmið eftir fundinn í gær og sagði að stefna ætti aldrei að leiða til aðgerðaleysis ef „friði, öryggi og stöðugleika Suðaustur-Asíu er ógnað.“


Tengdar fréttir

Her­foringinn í fyrstu opin­beru em­bættis­ferðinni eftir valda­rán

Ming Aung Hlaing, yfirherforingi mjanmarska hersins, flaug til Jakarta á Indónesíu í dag til að sækja neyðarleiðtogafund Sambands Suðaustur-Asíuríkja, Asean, í Jakarta á Indónesíu í dag. Þetta er fyrsta opinbera embættisferð Hlaings eftir að herinn framdi valdarán í Mjanmar þann 1. febrúar síðastliðinn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×